Batnandi stelpum og köttum er best að lifa:)
Fídel drap geitung í dag og ég er ekki frá því að ég sé frekar stolt af loðkútnum mínum:) ég sá viðureignina að vísu ekki sjálf en miðað við hvað kötturinn er þreyttur þá hlýtur eitthvað að hafa gengið á ... að vísu er kúturinn orðinn níu ára og hans aðaláhugamál er svefn þannig að það er fræðilegur möguleiki að hann hafi sofið í allan dag og að geitungurinn hafi komist hingað inn rétt áður en hann varð sjálfdauður vegna árstíma en ég neita að trúa því vegna þess að hin útgáfan um hinn mikla bardaga Davíðs og Golíats (sama útkoma en við erum að tala um hreðjastærð ekki líkamlega) er svo miklu skemmtilegri :)
og mitt tilkall til titilsins "betri manneskja fyrir afrek dagsins í dag" er það að ég fór í búðina:) og ekki aðeins fór ég í búðina heldur mundi ég eftir því sem mig vantaði í alvörunni og keypti ekki eingöngu vitleysu og túnfisk eins og kemur svo oft fyrir:) ég keypti sápu og morgunmat og grænmeti og álegg og rúgbrauð því ég keypti mér risavaxna krukku af síld um daginn (flokkast undir vitleysu) en gleymi alltaf tilvist hennar þangað til rúgbrauðið er búið ... á föstudaginn til dæmis þegar ég var að búa til nesti fyrir laugardaginn þá fór ég sérferð út í búð til að kaupa ost til að hafa með öllu þessu óútskýrða rúgbrauði sem ég átti heima hjá mér ... í gær fattaði ég svo að ég átti síld og ost en ekkert brauð:)
Ég er farin að gera mér grein fyrir því að mér er ekki ætlað að vera húsmóðir en ég hef lært að spinna þar sem ég er óumflýjanlega nakin í þessu samhengi. Eitt af mínum húsmóðurráðum fyrir þá sem eru að byrja búskap er að kaupa aldrei sítrónuklósetthreinsi eða klósettstein með sítrónulykt ef þú notar sítrónuuppþvottalög í eldhúsinu því þá verður kúkalykt af uppvaskinu :)
Góðar stundir
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli