Langt síðan síðast :)
Ég kenni Facebook um, ekki því að ég hafi verið löt að skrifa undanfarið, auðvitað ekki. Mun auðveldara og skynsamara að skella skuldinni á eitthvað annað, sérstaklega þegar þetta "annað" getur ekki svarað fyrir sig og það vita allir að Facebook er tímaþjófur - hefur ekkert með mína leti að gera ... neibbs :)
svo er líka sumar, ég hugsa að ég hafi aldrei verið sérlega dugleg að blogga á sumrin þó ég hafi ekki athugað það til að styðja mál mitt - þetta er bara önnur afsökun. Þær eru fleiri auðvitað en ég hugsa að ég láti staðar numið núna og segi eitthvað af viti. Eins langt og það nær að minnsta kosti :)
Talandi um Facebook þá virðast sú tíska vera ríkjandi að fólk auglýsi frammistöðu sína í statusnum sínum. Ekkert að því auðvitað því fólk er beðið um að skrifa "það sem það er að gera núna", en það er ekki laust við að ég finni stundum fyrir minnimáttarkennd þegar það virðist sem annar hvor notandi sé uppá Esjunni í hverri viku, hlaupi fleiri fleiri kílómetra daglega og þrífi íverustaði sína oftar en sjúkrahúsin þrífa gangana ... ég kýs fremur að miðla af visku minni í formi ráðlegginga um áhyggjulausara líf en að auglýsa frammistöðu mína. Þrátt fyrir að skara frammúr á hinum ýmsu sviðum auðvitað ;)
Það hafa allir af einhverju að státa og frammistaða fólks í íþróttum og útivist er mun skárri en önnur frammistaða þeirra líkamlega. Við getum öll verið fegin að A-týpurnar sem hlaupa á fjöllin og ryksuga með gusto auglýsi þá frammistöðu frekar en til dæmis bólfimi, klósettferðir - stærð afraksturins, lögun og lykt - tilfinningar (andlega og líkamlega) eða hnyttni af þeirri gerð sem aðeins skilst ef þú varst sjálfur á staðnum. "Það sem þú ert að gera núna" er nefnilega afskaplega loðið og teygjanlegt og fólk skilur það á mismunandi hátt ...
en til að auglýsa eigin frammistöðu þá hef ég raunar gert ýmislegt undanfarið ... fór til dæmis á Esjuna síðasta fimmtudag, í bústað síðustu helgi og sá brúðuleikhús á Hólmavík - mæli hiklaust með því, hló upphátt og það komu meira að segja tár ;) - og gekk upp að Glym í fyrsta sinn í dag í frábæru veðri en greinilega ekki hættulausu. Við vorum líka að segja það þegar við vorum að klöngrast í klettunum efst í Esjunni að það væri eiginlega merkilegt að fleiri slösuðust ekki þarna uppi miðað við umferðina og viti menn Esjan er alls ekki hættulaus, daginn eftir varð óhapp og líka í dag :/
farið varlega en djarflega og njótið sumarsins ;)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli