föstudagur, nóvember 30, 2007

Ég gerði mér enga grein fyrir hvað væri mikið í sjónvarpinu um miðja nótt ... ég hélt að svona miðnætursjónvarp væri bara bundið við helgar, jól og páska ekki virkar nætur líka:)

Það er alltaf í gangi hérna í vinnunni, sjónvarpið sko, en ég fylgist mjög mismikið með því, fer bæði eftir því hvað er að gera og hvaða þátt er verið að sýna. Einhvern tímann eftir miðnættið á Skjá einum sýna þeir gamla CSI Las Vegas þætti sem er gaman að horfa á og eftir fjögur er Numb3rs á Stöð tvö - fyrsta skiptið sem ég sá tilgang með stærðfræði var þegar ég sá Numbers:) ég veit auðvitað að stærðfræði er notuð í alls konar hluti í daglega lífinu en aldrei eins áberandi og í þessum þáttum:)

aníhú, ég er að venjast þessum næturvöktum aðeins en það er samt skringilegt að vera vakandi alla nóttina og vakna á kvöldin sem morgun væri, ekkert að því svo sem, geri það stundum í prívatlífinu og oft þegar ég var unglingur, bara skrítið að fá borgað fyrir það?:)

það er engin klórlykt á nóttunni en í nótt hef ég verið að nota rúðusprey hingað og þangað þannig að það er svona frískleg hrein lykt hérna inni:) ætla að spjalla við stelpurnar sem láta okkur fá þrifefni næst þegar ég er að dagvakt og fá eitthvað ilmgott í stað klórsins, hlýtur að vera hægt þó þetta sé ríkisstofnun;)

Góðar stundir

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Afhverju haldiði að ég horfi ekki á hryllingsmyndir?

... ok, þetta var ekki ég, en það hefði vel getað verið það:)

ég fór á villibráðaárshátíðarhlaðborð hjá Þykkvabæjar í gærkvöldi og ég er eiginlega ennþá aðeins södd:) þetta var haldið í Árhús á Hellu og svo gistum við öll (sem vorum úr bænum) í litlu húsunum sem staðurinn leigir út. Ég skemmti mér óskaplega vel og ég vildi óska (ekki í fyrsta skiptið um ævina) að ég gæti verið í fleiri en einni vinnu í einu, allt fólkið hjá Þykkvabæjar eru svo miklir öðlingar ... Bókhlöðuliðið er líka einstakt og nýju vinnufélagarnir eru alltaf að verða skemmtilegri ... ef útí það er farið eru fiskibúðarstrákarnir algerar perlur:) ... ég held barasta að ég hafi aldrei unnið á virkilega lélegum vinnustað, það hafa verið kostir og gallar alls staðar auðvitað eins og gerist. Í fiskbúðinni var ég stundum í alltof miklu návígi við dill (já, kryddið .... uuugggghhhh!!!) og dauð fiskaaugu (þau eru miklu óhuggulegri en allt annað í sambandi við dauða fiska, finnst mér). Það var aðeins of lítið um dagsljós og of mikið af ryki á hlöðunni og í Þykkvabæjar var kartöfluslímið, einstaka sinnum fóru kartöflur að gerjast (til dæmis ef þær voru ekki nægilega mikið soðnar áður en þær fóru í pokann) þá blésu pokarnir út og ef þeir sprungu kom ógurleg lykt sem fór ekki af manni fyrr en eftir nokkra þvotta ... og hún festist í nefninu á mér líka, í bæði skiptin:) Zorró var hins vegar sérlega hrifinn af lyktinni og slefaði stjórnlaust með nefið límt við buxurnar mínar og úlpuermina þegar ég kom heim þannig að það er spurning hvort kartöfluslímið hafi verið galli?:)

í nýju vinnunni er gallinn klór og klórlykt, við þrífum með því til að gera allt bakteríufrítt en þegar ég er búin að standa inn í klefa og skrúbba með klór í smá stund er ég komin með bragð í munninn eins og þegar ég var krakki og búin að vera í sundi í þrjá tíma og fara aðeins of oft í kaf á þeim tíma;) þannig að þó að bragðið sé óþægilegt og velgjuvekjandi (er það orð, móðurmálsmeistarar mínir góðir?) er spurning hvort ég eigi ekki bara að njóta bernskuminninganna? ekki á hverjum degi sem ég finn lykt sem minnir eins mikið á æsku mína og þessi blessaða klórbræla ... sem betur fer;)

klór, kartöfuslím, dill, ryk, klikkaðir fararstjórar, nöldrandi kúnnar ... en án þeirra væru kostirnir kannski ekki eins skínandi, áberandi og eftirminnilegir? :)

Lifið heil og njótið lífsins

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Ertu að meina þetta -hvaff?



hlustaðu á textann eftir 2 mín 16 sek;)

... man annars ekki eftir neinu öðru núna ... nema kannski Asshole með Dennis Leary?



góðar stundir

mánudagur, nóvember 19, 2007

Jæja:)

ég var að spjalla við Farandi áðan, við ræddum allt mögulegt og þar á meðal bloggletina sem kvelur báðar síðurnar okkar undanfarið ... ég kaus að blogga ekki á Degi íslenskrar tungu - af augljósum ástæðum - en Farandi er að spá í að bæta íslensku við ferða- og heilsubloggið sitt ... blogginu mínu vantar hugsanlega einhvurn svoleiðis vinkil þó ég geti lofað ykkur að hann verður hvorki málfars- né íslenskutengdur, af einhverju viti að minnsta kosti:)

ég gæti bloggað sögur úr vinnunni (alveg þangað til ég yrði rekin sum sé), en hver nennir að lesa endalaust um hvað annað fólk er að gera í vinnunni? sögurnar eru kannski fyndnar til að byrja með, á meðan ég er ennþá að kynnast fólkinu og starfinu, en þegar á líður og ég er komin meira inn í hvernig allt gengur breytist húmorinn ábyggilega þannig að það sem mér finnst fyndið eða skondið og frásagnarvert er það ekki í augum lesenda - alveg eins og endurskoðendur segja vafalítið brandara sem við framtalsfatlaða fólk skiljum alls ekki og hver veit nema bakarar kunni óhemjuskondnar sögur af kökum sem bökuðust ekki ... eða eitthvað? :)

sjáum til hvað verður, við Farandi ákváðum að blogga í kvöld um hvað við fílum en er hallærislegt, hlutir sem við gerum en viðurkennum ekki eða afsökum ef það ber á góma ... eins og að geta farið með línur úr heilalausum rómantískum gamanmyndum eða sungið með hnakkapoppi;) en ég hef gert það svo oft áður á þessum vettvangi, viðurkennt bresti mína opinberlega, að ég hvet ykkur eindregið til að skoða "Gamlar Synetur" hér að neðan, hægra megin - sem minnir mig á það Olla mín, spurðirðu pabba þinn einhvern tímann að því afhverju Dagvarðareyri heitir Dagvarðareyri? :)

Lifið heil og klæðið ykkur eftir veðri!

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Vá, ég þakka kærlega fyrir öll kommentin við færslunni að neðan og ég vona innilega að ekkert ykkar komi að heimsækja mig í vinnuna - en ef það kemur fyrir lofa ég að koma með aukateppi og kaffi til ykkar:)

ég mun ekki, tek það fram strax til að forðast misskilning seinna meir ef þær aðstæður koma upp, alls ekki, hleypa ykkur út, ég má það ekki - það felst nefnilega í fangavörslunni að passa uppá það að fangarnir haldi áfram að vera inni:)

ég má auðvitað ekki tala um það sem er að gerast í vinnunni en þetta er gífurlega fjölbreytt starf, ólíklegasta fólk verður að gista hjá okkur - ekki bara glæpamenn:) fólk sem á hvergi heima kemur og gistir, sumir skemmta sér of mikið og rata ekki heim, aðrir ganga aðeins of langt, eru til dæmis með stæla þegar löggan mætir á svæðið (í mismunandi erindum) og fær að láta renna af sér inní klefa hjá okkur - kúlið fer samt aðeins af þeim þegar vinirnir eru ekki lengur áhorfendur heldur einn skitinn fangavörður, sem neitar að hleypa þeim út:)

þegar árhátíðatímbilið hefst er svolítið um það að formenn skemmtinefnda og venjulegt fólk sem smakkar yfirleitt ekki áfengi missi algera stjórn á sér eftir að hafa verið stressað í lengri tíma og vaknar hjá okkur án þess að muna eftir nóttinni - eða man of mikið;)

það er enginn sérlega ánægður með að láta loka sig inni auðvitað þannig að þetta er ekki beint "skemmtileg vinna" og hingað til hef ég lært þrennt; ég ræð, ég ræð og ég ræð - sem er víst ekki ósvipað því að vera leikskólakennari, ýmislegt líkt með fangelsum og leikskólum þegar út í það er farið ... en ég er líka orðin fær í sjá hvort fólk andi, merkileg færni sem ég hélt ekki að ég þyrfti að æfa mig í - ekki mörg stöfin sem kalla á að fólk fylgist með því hvort annað fólk andi nema þá kannski á sjúkrahúsum?? eða líkhúsum sem gæti vel verið næsta starf? svona til að viðhalda kúlinu?:)

þó að þetta sé ekki "skemmtileg vinna" þá er hún það samt:) vinnufélagarnir eru skemmtilegir og það er alltaf eitthvað að gerast, vinnustaðurinn er alltaf sá sami en vinnuumhverfið er alltaf nýtt á hverjum degi, þegar ég mæti veit ég aldrei hvort það er einhver inni, hversu margir munu koma inn eða fara og hvað á eftir að gerast á vaktinni - óvissa sem er soldið spennandi:) svo er þetta líka vaktavinna þannig að ég er í fríi á hinum ýmsu tímum sólarhringsins og vikunnar sem er afskaplega gaman eftir 8 til 5 vinnu undanfarin ár:) ef þið eruð í fríi á óvenjulegum tíma og viljið kíkja á kaffihús eða niðrá Tjörn eða eitthvað tékkið endilega á mér, ég gæti vel verið í fríi líka:)

og varðandi konuna sem snýst, ég hef ekki hugmynd um rétt svar - hún snýst ýmist rétt- eða rangsælis í hvert sinn sem ég lít á hana þannig að við verðum bara öll að gera það upp við okkur sjálf hvora áttina hún fer;)

lifið heil og verum í sambandi

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Góðan og blessaðan daginn:)

segið mér, vegna þess að ég er orðin ringluð og get ekki svarað fyrirspurn góðvinar míns um í hvora áttina þessi unga stúlka er að snúa sér, hvort snýr hún sér réttsælis eða rangsælis?

annarsvar ég að vakna eftir fyrstu vaktina mína í nýju vinnunni og mér líður bara slatti vel:) ég held jafnvel að ég eigi alveg eftir að ráða við að vera fangavörður, þó að fangageymslurnar hafi verið fullar í nótt þá reddaðist þetta allt saman:)

verð samt að venjast búningnum aðeins, hef aldrei unnið með bindi og síðast þegar ég var í blárri skyrtu, með "skynsamlega hárgreiðslu" og varð að fara í plasthanska fyrir
viðskiptavininn var það ekki vegna hlandbleytu heldur fisks ... en á móti kemur þá er ammóníak í skötunni og þegar ég var að vinna í skötutunnunum mátti ég heldur ekki vera ein oní henni þannig að ég er viss um að ég eigi eftir að venjast þessu eins og andarungi tjörninni:)

Lifið heil