föstudagur, júní 02, 2006

Í fyrradag vorum við að ræða mótorhjólagalla og muninn á leðri og kevlar. Tilefnið var að Einarinn var að kaupa sér hrikalega flott hjól (til hamingju aftur með það;)) og Gunnar var í vinnunni, þeir komu báðir í heimsókn leðurklæddir og brakandi. Við stóðum úti í semigóðaveðrinu sem fólk var að nýta til gönguferða og ræddum öryggi og meðferð mótorhjólafatnaðar og hvað það sést ekkert á leðri þrátt fyrir mikla notkun. Gunnar sagði að honum þætti best að vera í leðurbuxum og Kevlar jakka. Þessu svara ég hátt á skýrt "Ég er öfug" og meinti að mér þætti leðurjakki og Kevlar buxur þægilegri samsetning, ég sagði það bara ekki;)

Um daginn skar ég mig í vinnunni, var að opna kassa, renndi litla putta innfyrir raufina og skar mig akkúrat í "liðamótafellinguna" á efstu kjúkunni, ég veit ekki ennþá hvað þetta tiltekna svæði fingursins heitir (kjúkufelling?) en þar sem ég dreg blæðandi fingurinn úr kassanum dettur mér aðeins í hug að segja: "ÁÁÁáááááII!! Ég skar mig í beygluna!!"

... stundum held ég að það sé ekkert samband á milli munnsins og málstöðva, þau eru ekki einu sinni fjarskyld þegar ég er þreytt, samanber "stjarnfræðigeimvísindarannsóknarflaugisti" sem þýðing á "rocket scientist" eitt kvöldið þegar ég var orðin frekar lúin;)

Lifið heil

Engin ummæli: