Pálína er komin með nýtt blogg og þar linkar hún meðal annars á Blóðflokkamataræðissíðu... Edda kíkti á sína útkomu og ég ákvað að gera það líka:) Það sem ég skil aldrei við svona er hvað má borða og hvað ekki þannig að ég ákvað að kíkja á matseðilinn sem hægt er að finna hérna, þetta ætti ég sem sagt að borða:
MATSEÐILL
Margir hafa kvartað yfir því að vita ekki hvað þeir eiga að borða eða hvernig þeir geta sett saman matinn ef þeir ætla að fylgja blóðflokkamataræðinu (og ég myndi falla undir svona einstakling)...
Dagur 1:
Morgunverður: Niðurskornir ávextir að eigin vali (skv. fæðulista), 1-2 tesk. hlynsíróp yfir.
Hádegisverður: Ristuð speltbrauðsneið með grillaðri kjúklingabringu, tómötum og salati. Ölkelduvatn (er þetta ekki venjulegt vatn? hvernig verð ég mér út um ölkelduvatn?).
Snarl milli mála: Eplasneiðar með möndlusmjöri (hvað er möndlusmjör? hakkaðar möndlur??).
Kvöldverður: Grillaður lax með pesto með basilíkum (heimalagað), grillaðar sætar kartöflur, romaine salat með salatsósu (væntanlega einhver sérstök salatsósa? eða bara hvað sem er?).
Dagur 2:
Morgunverður: Sneið af spírubrauði með sultu úr svörtum kirsuberjum, engiferte (ég er að hugsa um að sofa yfir mig þennan dag og missa af morgunmatnum).
Hádegisverður: Túnfisksalat á hrökkbrauði (ég geri ráð fyrir að þetta sé ekki hefðbundið túnfisksalat heldur eitthvað blóðflokkaspesiffik?), fenugreek-te heitt (hvers konar te er þetta? grískt?) eða með ísmolum.
Snarl milli mála: Ferskur ananas (jamms, alltaf með einn solleis í bakpokanum), greipaldinsafi og hreinn kristall (erum við að tala um gosdrykkinn Kristal? eða grjótið? - heimilsfangið er sko á Hellnum á Snæfellsnesi og emailið er gudrun@hellnar.is ... jamms, það er alveg hægt að misskilja er það ekki??).
Kvöldverður: Snöggsteiktar rækjur með grænmeti, rauðri papriku, spergilkáli, hvítlauk, lauk og tamari-sósu (hvers konar sósa er þetta? er hægt að kaupa hana? eða er hún heimatilbúin?). Sushi hrísgrjón, Engiferte með ísmolum. Gráfíkjukökur (held barasta að ég hafi aldrei séð gráfíkjukökur... eða eru þetta FigRolls eins og eru í öllum búðin... naaahhh too easy!).
Dagur 3:
Morgunverður: Eggjakaka úr einu eggi með rifnum gulrótum og kúrbít, glas af ananassafa, rósaberjate (rósaberjate ... enn ein te tegundin).
Hádegisverður: Laxasalat með majónesi og söxuðu fersku dilli á salatblaði, hrökkbrauð, fenugreek-te með ísmolum.
Snarl milli mála: Gulróta- og engifersafi (þetta þarf ég væntanlega að búa til sjálf... hvernig ættu hlutföllin í þessu að vera? ég þarf örugglega að kaupa bókina, ég sé það núna...).
Kvöldverður: Lifur með lauk, pílaff (pílaff, pílaff.... pílaff, hljómar eins og eitthvað sem fólk saumar á kjóla eða nærföt??) úr brúnum hrísgrjónum, blandað grænt salat.
Dagur 4:
Morgunverður: Soðin egg á ristuðu spírubrauði (meira spírubrauð... kannski er þetta til í bakaríum?), ½ greipaldin (endist hinn helmingurinn fram að næsta degi fjögur?), regnálmste (þessi te eru orðin frekar iffí...).
Hádegisverður: Ostborgari (hamborgarabrauð úr speltmjöli) m/geitaosti, blandað salat með tómötum.
Snarl milli mála: Pera, glas af sojamjólk (er soyamjólk seld í minni umbúðum en lítrum? ef ekki endist hún fram að næsta degi fjögur? þessi dagur verður dagur sóunar:/).
Kvöldverður: Grilluð lifur með lauk, gufusoðið spergilkál með ídýfusósu (Vogaídýfa??? væntanlega ekki? hvernig ídýfa á þetta að vera?), pílaff (pílaff, pílaff, pílaff, plíaff, plíaff, plaff, plaff ... segðu pílaff tíu sinnum hratt) úr brúnum hrísgrjónum.
Dagur 5:
Morgunverður: Speltflögur (speltflögur ... er það hráefnið sem speltbrauð er búið til úr? eða eru speltflögur búnar til úr sama "hveiti" og speltbrauð??) með rúsínum og sojamjólk, banani, engiferte.
Hádegisverður: Einföld fiskisúpa (ekki flókin... hvar eru mörkin, er einföld bara súpa með rækjum? hvenær verður hún flókin?), brauðbolla úr speltmjöli (væntanlega úr bakaríi??), kristall með ananassafa.
Snarl milli mála: 2 valhnetusmákökur (úr ráðlögðu mjöli - auðvitað!! hvað eiga þær að vera stórar? á stærð við tíkalla eða lófa eða eins og súkkulaðibitakökurnar í bakaríunum), piparmyntute (þetta te hef ég heyrt um:)).
Kvöldverður: Grilluð nautalendarsteik, núðlur (úr ráðlögðu mjöli), soðsteikt spínat (hvernig soðsteiki ég spínat? hvernig er nokkuð soðsteikt???) með hvítlauk.
Dagur 6:
Morgunverður: Banana- og hnetumuffins (ég hef séð bláberja og súkkulaði og double chocolate en ekki banana og hnetu?), piparmyntute (ég held ég fái mér bara te þennan morguninn).
Hádegisverður: Pinto-baunasúpa (hvernig eru Pinto baunir?), blandað grænt salat, sódavatn með sítrónusneið.
Snarl milli mála: Banana- og sojamjólkurþykkni (matvinnsluvél) (aftur spurning um hlutföll ... en ég ætla ekki að kaupa þessa bók!!).
Kvöldverður: Karríkrydduð lambakássa með mangó-chutney, basmati hrísgrjón, soðsteiktur blaðlaukur, fenugreek-te (þetta er svo sem í lagi kvöldmatur fyrir utan soðsteikinguna og teið...).
ég sé hvergi að ég megi drekka bara vatn, það verður að vera ölkelduvatn eða sódavatn... má ég drekka eins mikið vatn og ég vil eða bara með matnum eins og matseðillinn gefur til kynna ... og þá með kolsýru... það er ekki fræðilegur að ég gæti þetta, ég myndi deyja úr hungri.....
einn skemmtilegur að lokum, til að gleðja alla:
why are cowboyhats curled up at the sides?
so four cowboys can sit in a pick-up truck
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli