fimmtudagur, júlí 29, 2004

Síðustu helgi fór ég í ferðalag út á land, kominn tími á nokkra daga útilegu til að "fíla grasið þar sem það grær" eins og Bubbi myndi segja. Bubbi var einmitt ferðafélagi minn ásamt fleirum þessa helgi því þetta var óvissuferði í tvennum skilningi, ég hafði ekki hugmynd um hvar ég ætlaði að gista á næturna svo tók ég með mér alla ómerktu diskana sem ég hef ætlað að hlusta á til að komast að því hvað er á þeim en hef aldrei fundið mér tíma til þess - sífelld óvissa, en alltaf verulega góð tónlist og góðir gististaðir;) ég skírði bílinn minn í ferðinni, kominn tími til að hann fengi alvöru nafn...

ég keyrði Kjöl og ætlaði að gista á Hveravöllum en þegar þangað var komið sá ég nokkur hundruð blá og grá tjöld sem einhver hafði tjaldað samkvæmt stöðlum bandaríska hersins um útlit grunnbúða landgönguliða. Þegar ég var komin inn á svæðið sá ég flokka af Þjóðverjum og Frökkum í mjög mismunandi ástandi sem áttu væntanlega að vera í þessum tjöldum en ég ákvað samt að ganga um svæðið og athuga hvort ég gæti ekki bara lagt soldið frá þeim en nei.... þarna var líka fimmtíu manna hópur úr Hafnarfirði, miðaldra fólk að drekka sig fullt, að losa fullar þvagblöðrur hér og þar, skemmta sér í lauginni og syngja, syngja, syngja - þetta var kór áhugamanna í kórferðalagi, sumt er ekki hægt að bjóða sjálfum sér þannig að ég hélt áfram:)

á Sauðárkrók er bar, hann heitir Bar-Inn, með bandstriki ekki klikka á því, en mér sýndist eiginlega allir stunda það að keyra bara í hringi, hring eftir hring með græjurnar í botni, verulega sveittir FM-hnakkar, sólgleraugu um miðja nótt og træbaltattú hvert sem litið var... þeir eru meira að segja með eigin heimasíðu:) fínn staður samt ábyggilega ef ég hefði gefið honum séns en ég nennti bara að vera eina nótt:)

fór á Grundarfjarðarhátíð á laugardagskvöldið - hitti Valgerði sem er nýflutt þangað og Pálínu, Eddu og Bryndísi (þú verður að fá þér síðu Bryndís;)) sem voru í dagsferð sem entist fram á nótt í bryggjuballsstuði og almennri gleði:) fyrir utan stelpurnar hitti ég fullt af fólki sem ég þekkti og er jafnvel að hugsa um að fara aftur að ári;) við sáum gamlan Willis í grasbúningi með skilti um að ganga ekki á grasinu:) hefði átt að taka myndavélina með mér - ég verð aldrei ljósmyndari, hafið þið ekki séð Supergirl? anívei... fór í Dritvík á leiðinni heim og komst að því að hún stóð engan vegin undir nafni miðað við hvað Íslendingar eru góðir í að skíra staði og bæi lýsandi nöfnum samanber Votamýri, Staðastaður, Hólahólar og Keisbakki (býst fastlega við að eitthvað keis búi á þeim bæ) svo ég nefni nokkra staði sem ég keyrði framhjá (keyrði líka framhjá skilti sem á stóð "2 Hundadalur" sem ég er ekki alveg að fatta... ég geri ráð fyrir að það búi aðeins tveir hundar í þessum dal??), ég var að tala um Dritvík... ekki neitt drit og varla nokkrir fuglar - verð samt að segja að ég fílaði víkina í ræmur, ótrúlega falleg fjara og er frekar fegin að það vantaði allt drit í hana:)

ég keyrði slatta í ferðinni, alveg alla leiðina... nenni ekki að setja alla ferðasöguna hingað inn þannig að þið verðið bara að hafa uppá mér og biðja mig um að segja ykkur frá;)

á meðan ég var í burtu gerðist margt í Reykjavík, langt síðan ég hef sett eitthvað inn af Lögguvefnum þannig að hérna kemur dagbókin síðan um helgina, soldið stytt:

Helstu verkefni LR helgina 23. - 25. júlí 2004
Um miðjan dag á föstudag var tilkynnt um innbrot í íbúð í Breiðholti.  Þar hafði verið stolið DVD spilar, tölvu og þrem GSM símum.
- afhverju voru ÞRÍR gemmsar í íbúðinni... hversu margir bjuggu þarna?
Um miðjan dag á laugardag tilkynnti kona um þjófnað, en hún var stödd í Sundhöllinni við Barónstíg.  Konan fór frá búningsklefa til laugar en snéri við eftir um 10 mínútur.  Þá kom í ljós að brotist hafði verið inn í búningsskáp konunnar og þaðan stolið þrem myndavélum og tveim greiðslukortum ásamt veski. - ÞRJÁR myndavélar, hvað er málið með að vera með of mikið af tækjum hjá sér? eins og Tracy Chapman myndi segja, two more than you need - hlustaði mikið á tónlist í ferðinni minni;)
Laust eftir miðnætti á laugardag var tilkynnt um að ökumaður væri hugsanlega ölvaður en hann var þá staddur í Hvalfjarðargöngum á leið í átt til Reykjavíkur.  Á Esjumelum skammt norðan Mosfellsbæjar urðu lögreglumenn varir við bifreið mannsins og hugðust stöðva hana.  Ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum og var honum þá veitt eftirför.  Ók hann um nokkrar götur í Mosfellsbæ en var loks lokaður af  í Hulduhlíð.  Var hann ölvaður og mjög æstur.  Var hann að lokinn blóðtöku færður í fangageymslu.
Nánast á sama tíma var bifreið ekið á vegg í Hverafold í Grafarvogi. Í ljós kom að ökumaður var mjög ölvaður og var hann eftir blóðtöku færður í fangageymslu. - mér líður ekki vel að vita af svona mönnum í umferðinni, pæliði í því, þeir nást ekki allir:/ horfa þeir aldrei á sjónvarpið? talandi um glæfraakstur, hafiði séð nýju herferðina frá Umferðastofu? með laginu eftir Vatnsenda Rósu? ... spúkkí
Á sunnudagsmorgunn þegar starfsmaður Bæjarins bestu var að taka til eftir nóttina, varð hann fyrir því að stóll sem hann hafði sett út fyrir á meðan hann gekk frá innan dyra, var stolið.  Fátt fær nú að vera í friði.
- heimur versnandi fer...

Góðar stundir

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Pálína er komin með nýtt blogg og þar linkar hún meðal annars á Blóðflokkamataræðissíðu... Edda kíkti á sína útkomu og ég ákvað að gera það líka:) Það sem ég skil aldrei við svona er hvað má borða og hvað ekki þannig að ég ákvað að kíkja á matseðilinn sem hægt er að finna hérna, þetta ætti ég sem sagt að borða:
 
MATSEÐILL
Margir hafa kvartað yfir því að vita ekki hvað þeir eiga að borða eða hvernig þeir geta sett saman matinn ef þeir ætla að fylgja blóðflokkamataræðinu (og ég myndi falla undir svona einstakling)... 
 
Dagur 1:
Morgunverður: Niðurskornir ávextir að eigin vali (skv. fæðulista), 1-2 tesk. hlynsíróp yfir.
Hádegisverður: Ristuð speltbrauðsneið með grillaðri kjúklingabringu, tómötum og salati. Ölkelduvatn (er þetta ekki venjulegt vatn? hvernig verð ég mér út um ölkelduvatn?).
Snarl milli mála: Eplasneiðar með möndlusmjöri (hvað er möndlusmjör? hakkaðar möndlur??).
Kvöldverður: Grillaður lax með pesto með basilíkum (heimalagað), grillaðar sætar kartöflur, romaine salat með salatsósu (væntanlega einhver sérstök salatsósa? eða bara hvað sem er?).
 
Dagur 2:
Morgunverður: Sneið af spírubrauði með sultu úr svörtum kirsuberjum, engiferte (ég er að hugsa um að sofa yfir mig þennan dag og missa af morgunmatnum).
Hádegisverður: Túnfisksalat á hrökkbrauði (ég geri ráð fyrir að þetta sé ekki hefðbundið túnfisksalat heldur eitthvað blóðflokkaspesiffik?), fenugreek-te heitt (hvers konar te er þetta? grískt?) eða með ísmolum.
Snarl milli mála: Ferskur ananas (jamms, alltaf með einn solleis í bakpokanum), greipaldinsafi og hreinn kristall (erum við að tala um gosdrykkinn Kristal? eða grjótið? - heimilsfangið er sko á Hellnum á Snæfellsnesi og emailið er gudrun@hellnar.is ... jamms, það er alveg hægt að misskilja er það ekki??).
Kvöldverður: Snöggsteiktar rækjur með grænmeti, rauðri papriku, spergilkáli, hvítlauk, lauk og tamari-sósu (hvers konar sósa er þetta? er hægt að kaupa hana? eða er hún heimatilbúin?). Sushi hrísgrjón, Engiferte með ísmolum. Gráfíkjukökur (held barasta að ég hafi aldrei séð gráfíkjukökur... eða eru þetta FigRolls eins og eru í öllum búðin... naaahhh too easy!).

Dagur 3:
Morgunverður: Eggjakaka úr einu eggi með rifnum gulrótum og kúrbít, glas af ananassafa, rósaberjate (rósaberjate ... enn ein te tegundin).
Hádegisverður: Laxasalat með majónesi og söxuðu fersku dilli á salatblaði, hrökkbrauð, fenugreek-te með ísmolum.
Snarl milli mála: Gulróta- og engifersafi (þetta þarf ég væntanlega að búa til sjálf... hvernig ættu hlutföllin í þessu að vera? ég þarf örugglega að kaupa bókina, ég sé það núna...).
Kvöldverður: Lifur með lauk, pílaff (pílaff, pílaff.... pílaff, hljómar eins og eitthvað sem fólk saumar á kjóla eða nærföt??) úr brúnum hrísgrjónum, blandað grænt salat.
 
Dagur 4:
Morgunverður: Soðin egg á ristuðu spírubrauði (meira spírubrauð... kannski er þetta til í bakaríum?), ½ greipaldin (endist hinn helmingurinn fram að næsta degi fjögur?), regnálmste (þessi te eru orðin frekar iffí...).
Hádegisverður: Ostborgari (hamborgarabrauð úr speltmjöli) m/geitaosti, blandað salat með tómötum.
Snarl milli mála: Pera, glas af sojamjólk (er soyamjólk seld í minni umbúðum en lítrum? ef ekki endist hún fram að næsta degi fjögur? þessi dagur verður dagur sóunar:/).
Kvöldverður: Grilluð lifur með lauk, gufusoðið spergilkál með ídýfusósu (Vogaídýfa??? væntanlega ekki? hvernig ídýfa á þetta að vera?), pílaff (pílaff, pílaff, pílaff, plíaff, plíaff, plaff, plaff ... segðu pílaff tíu sinnum hratt) úr brúnum hrísgrjónum.
 
Dagur 5:
Morgunverður: Speltflögur (speltflögur ... er það hráefnið sem speltbrauð er búið til úr? eða eru speltflögur búnar til úr sama "hveiti" og speltbrauð??) með rúsínum og sojamjólk, banani, engiferte.
Hádegisverður: Einföld fiskisúpa (ekki flókin... hvar eru mörkin, er einföld bara súpa með rækjum? hvenær verður hún flókin?), brauðbolla úr speltmjöli (væntanlega úr bakaríi??), kristall með ananassafa.
Snarl milli mála: 2 valhnetusmákökur (úr ráðlögðu mjöli - auðvitað!! hvað eiga þær að vera stórar? á stærð við tíkalla eða lófa eða eins og súkkulaðibitakökurnar í bakaríunum), piparmyntute (þetta te hef ég heyrt um:)).
Kvöldverður: Grilluð nautalendarsteik, núðlur (úr ráðlögðu mjöli), soðsteikt spínat (hvernig soðsteiki ég spínat? hvernig er nokkuð soðsteikt???) með hvítlauk.

Dagur 6:
Morgunverður: Banana- og hnetumuffins (ég hef séð bláberja og súkkulaði og double chocolate en ekki banana og hnetu?), piparmyntute (ég held ég fái mér bara te þennan morguninn).
Hádegisverður: Pinto-baunasúpa (hvernig eru Pinto baunir?), blandað grænt salat, sódavatn með sítrónusneið.
Snarl milli mála: Banana- og sojamjólkurþykkni (matvinnsluvél) (aftur spurning um hlutföll ... en ég ætla ekki að kaupa þessa bók!!).
Kvöldverður: Karríkrydduð lambakássa með mangó-chutney, basmati hrísgrjón, soðsteiktur blaðlaukur, fenugreek-te (þetta er svo sem í lagi kvöldmatur fyrir utan soðsteikinguna og teið...).
 
ég sé hvergi að ég megi drekka bara vatn, það verður að vera ölkelduvatn eða sódavatn... má ég drekka eins mikið vatn og ég vil eða bara með matnum eins og matseðillinn gefur til kynna ... og þá með kolsýru... það er ekki fræðilegur að ég gæti þetta, ég myndi deyja úr hungri.....
 
einn skemmtilegur að lokum, til að gleðja alla:
why are cowboyhats curled up at the sides?
so four cowboys can sit in a pick-up truck

fimmtudagur, júlí 08, 2004

það er föstudagur á morgun og í tilefni fimmtudagsins koma hérna nokkrir frá árinu 1950:

Herbergisþjónn: "Hringduð þjer bjöllunni, herra?"
Reiður gestur: "Nei, kirkjuklukkunum, Jeg hjelt þjer væruð dauður."

Mjög horaður maður mætti mjög feitum manni í anddyri.
"Eftir útliti yðar að dæma", sagði sá feiti, "mætti halda, að það hefði ríkt hungursneyð."
"Og eftir útliti yðar að dæma," sagði sá horaði, "mætti halda, að þjer hefðuðu orsakað hana."

Einfalt mál.
Hópur af ferðamönnum í Arizona mætti Indíána ríðandi á hesti. Kona gekk við hlið hans og kiknaði undan þungri byrði.
"Hvers vegna er ekki konan ríðandi?" spurði einn ferðamaðurinn.
"Hún hefir engan hest."

Gætið háttvísi.
Viðskiptavinur: "ÞJónn, þessi rjúpa er viðbjóðsleg."
Þjónn. "Uss, herra. Talið aldrei illa um hina dauðu."

13. ágúst 1950, blaðsíðu 10.


dadramdam!

sunnudagur, júlí 04, 2004

var að koma úr Tívólíinu:) rosalega gaman en ég mæli ekki með X-TREAM tækinu (sem Hannes neyddi mig til að prófa) ef ykkur þykir vænt um magann á ykkur:/ draugahúsið var hins vegar fínt, þið verið nett nojuð meina ég, sérstaklega ef þið farið með einhverjum í það sem er sífellt að bregða ykkur - endilega bjóðið Hannesi með ykkur;) við prófuðum skotbakka líka og ég vann tuskukött sem Fídel er ekki sáttur við... miðið á byssunum er eitthvað skakkt en það er skakkt í alveg hárrétta átt fyrir mig því yfirleitt hitti ég aldrei neitt þegar ég reyni að miða á eitthvað ákveðið:)

... sá líka gókartbraut þarna hjá Smáralindinni þegar við vorum alveg efst í Parísarhjólinu:) verð að prófa hana einhvern tímann - einhver maður í keppni?:)

laugardagur, júlí 03, 2004

Jæja Valgerður, það er kominn linkur á þig:) loksins:)

í gær var hið árlega gókart mót kaffihússins og ég vann gullmedalíu:) mætti með hana í vinnuna og allt saman... en ég vann að vísu ekki með hana því hún var alltaf fyrir þegar ég var að fara með súpur á borð og dæla bjórum og þannig en ég hengdi hana upp þegar ég kom heim og hún fer rosalega vel í stofunni hjá mér:) þetta var geðveik keppni, allir að fara yfirum af keppnisanda og allir ætluðu að vinna, bílar að snúast hægri vinstri (á þurri braut), ég lenti í árekstri við Böggles sem missti stjórn í beygju sem ég var á leiðinni í og ég gat ekki neitt gert nema beygja undan og skella á honum, ein fór í dekkjavegginn og braut stýrið sitt, einn fór á ágætum hraða í beygju og dekkið flaug undan bílnum, bíllinn í dekkin og ökumaðurinn út í móa... þetta var snilld!!! ef þið hafið ekkert að gera og eigið pening (þetta er dýrt...) þá mæli ég hiklaust með gókarti í Reykjanesbæ - þið fáið galla og hjálm og allt:)

Erla og Atli kíktu í heimsókn í vinnuna mína í gær:) takk fyrir komuna! Hannes kom líka en þá var of klikkað að gera til að segja meira en hæ... það var frekar mikið að gera í gær, allt kvöldið, engin lægð á meðan fólk borðar kvöldmat eins og stundum en líklega var það vegna þess að allir voru búnir að fá útborgað?

við fengum 13 manna steggjapartý frá Englandi í heimsókn, allir í Gull - The Viking Bear og refsiskot, einn gaur fékk sér kaffi og varð að taka refsiskot, annar fór tvisvar á klósettið á einum bjór og varð að taka refsiskot... þeir voru mjög fullir:) ég held ég hafi samt aldrei séð annan eins hópþrýsting... á sama tíma vorum við með fjögurra manna afmælisveislu sem söng og hafði miklu, miklu hærra en steggjapartýið - en það var allt í lagi vegna þess að þetta voru félagar mínir úr sigurliðinu í fótboltanum um daginn:)

fyrr um kvöldið kom Augun og sat í nokkra klukkutíma á borðinu sínu... við köllum hann Augun en mamma hans kallar hann ábyggilega eitthvað annað... þetta er útlendingur sem virðist ekki tala neitt ákveðið tungumál, allt sem hann segir er blanda af ensku, þýsku, frönsku, umli (aðallega) og bendingum... sem betur fer bendir hann vegna þess að annars væri ábyggilega verulega erfitt að afgreiða hann:) hann sest alltaf á sama borðið í horninu, pantar sér mismunandi rétti (sem er fremur óeðlilegt því yfirleitt pantar "svona fólk" sér alltaf það sama, eitthvað í comfort zoneinu sínu...) og situr svo í tvo til þrjá tíma og reynir að vera ósýnilegur. Honum tekst það næstum því en við tökum alltaf eftir augunum í honum, þess vegna köllum við hann Augun... verulega furðulegur gaur og ég er fegin að fá hann ekki heim til mín í sunnudagsmat!

búin að vera vakandi í meira en tvo tíma þó ég hafi ætlað að sofa út, einhvers staðar í hverfinu er verið að grafa í gegnum granít með ósmurðri gröfu... ætla að fara að gera eitthvað núna, innivinnu því veðrið er ... ógisslegt:(