laugardagur, nóvember 07, 2015

Alls konar fólk

Það er alls konar fólk sem kemur hingað eins og ég sagði í gær :) hér má til dæmis sjá tvo aldna rokkara sem sátu ásamt fleirum á næsta borði í morgunmatnum ;)

föstudagur, nóvember 06, 2015

Risinn á baðherberginu

Eitthvað klikkaði að setja póstinn inn í gær og það sem ég skrifaði í morgun vistaðist hvergi - það er ekki hægt að treysta á internet á ferðalögum ;)

Þannig að hér er tilraun þrjú:
Við Harpa erum á hosteli hér í Munchen nálægt aðalbrautarstöðinni. Mjög nálægt, í næstu götu við, en þetta er samt mjög fínt og snyrtilegt allt saman (já, ég er með fordóma gagnvart gististöðum nálægt aðaljárnbrautarstöðvum). Það er hérna fólk alls staðar að úr heiminum og þó nokkuð um fólk frá Asíu. 
Núna er ég ekki sérstaklega lítil kona en mér finnst yfirleitt ég heldur ekki vera neinn risi. Þangað til ég fór inná bað í morgun. Nývöknuð með myndarlegan samfarahnakka (eins og sagt er, það var ekki raunverulega orsök hins úfna hárs - líklegri ástæða var gríðarlega stór og óstýrilátan koddi sem ég barðist við í alla nótt), í plastinniskóm og náttfötum. Fyrir framan hvern einasta spegil og vask stóðu nokkrar asískar skólastelpur. Þær voru að sinna hinum ýmsu morgunverkum, hár, tennur, farði, neglur og ein virtist vera að sauma fötin á sig. Þær voru rosalega margar en virtust kannski fleiri því baðherbergið er lítið.
Þegar ég gekk inn leið mér eins og risa en ekki bara risa heldur risa úr grárri forneskju. Þær virtust allar vera helmingi yngri en ég og helmingi minni. Ég geri ráð fyrir að þær séu úr samfélagi sem virðir eldra og stærra fólk, kannski frá heimkynnum súmó íþróttarinnar, því ég fékk strax pláss við vask og fékk að hafa hann útaf fyrir mig. Ég byrjaði morgunverkin mín og horfði varlega í kringum mig á meðan. Að lokum stöðvuðust augu mín á spegilmyndinni fyrir framan mig. Úfið hár eins og áður segir, svefndrukkið andlit, smá tannkrem í munnvikinu og skærgulur bolur. Asísku stelpurnar í kringum mig náðu mér upp að bringu og á bringunni minni, í augnhæð við þær var broskarl. Í kringum broskarlinn stóð "I took my pills today".
Núna eru þær kannski líka með fordóma fyrir gististöðum nálægt aðaljárnbrautarstöðvum?

mánudagur, nóvember 02, 2015

Búin í skólanum! Orðin iðjuþjálfi og orðin fær um að lifa lífinu eins og það á að lifast ... jújú, amk fræðilega séð :) Hins vegar er ég farin að setja mér alls konar markmið og ef þau eru nægilega sniðug þá gengur mér alveg glimmrandi vel að ná þeim - flestum að minnsta kosti :)


Núna er það nýjasta markmiðið fyrir nóvember: blogga á þeim dögum sem ber uppá sléttar tölur, 2., 4., og svo framvegis - hvernig hljómar það?

Sjáum til ... þetta er hið minnsta gerlegra en að skrifa skáldsögu í nóvember eins og ég var að hugsa um: http://nanowrimo.org ég geri það kannski bara á næsta ári?

#netturnóvember

fimmtudagur, ágúst 06, 2015

Sumarbústaðar blogg

Er ekki góð hugmynd að blogga úr bústaðnum sem ég hef verið í síðan á föstudaginn? 

Eflaust. Bíltúr á jeppum umhverfis Langavatn, ís á Erpsstöðum, kaupfélagsrúntur í Búðardal, geiturnar á Háafelli, tvisvar, Húsafell, Hraunfossar og Barnafossar, Kleppjárnsreykir, jarðaber, Krosslaug, fyrrverandi lýðháskólinn á Hvítárbökkum, flækt folald, Samgöngusafnið í Brákarey, Hreðavatn, Glanni, Kaffi kyrrð, grill, spil, pottur, hekl, frábær matur og gríðarlega góður félagsskapur. Í dag förum við hringinn um Snæfellsnesið og endum í grillveislu í Ögri. Þannig dagur getur ekki klikkað.

föstudagur, júlí 10, 2015

Það er til app fyrir allt

... líka til að blogga svo núna get ég farið að blogga beint úr símanum mínum. Rosaleg tækni er þetta og rosalega er ég tæknivædd ;)