laugardagur, janúar 16, 2010

Alveg er það merkilegt hvað vatnsmelónur eru góðar í alvörunni en vondar sem nammibragð. Afhverju eru framleiðendur yfir höfuð að búa til nammi með vatnsmelónubragði þar sem bragðið er eiginlega ekki til sem bragð heldur áferð? Ég smakkaði vatnsmelónutyggjó um árið og ojbarasta! Og núna var ég að smakka vatnsmelónumentos úr svona rainbowmentospakka og kunni alls ekki að meta það:/

Ég sá regnbogamentosið við kassann í búðinni áðan og þar sem ég er búin að sofa alltof lítið miðað við vakaðan tíma undanfarið og átti heilan vinnu"dag" framundan þá átti ég hann skilið, ég átti hann svo mikið skilið að ég hefði getað keypt tvo :) sem hefði ekki verið sérlega sniðugt því hugmyndin er betri en raunin ... pakkinn er miklu betri vinstra megin þannig byrjið endilega á þeim enda þegar þið kaupið ykkur óvænt regnbogamentos ;)

Alltaf merkilegt hvað gerist þegar heilinn er í hægagangi, ekki í gír sumsé heldur malar í rólegheitunum og ekkert sérstakt er að gerast sem krefst einbeitingar, eins og þegar ég stóð í röðinni við kassann áðan. Það kom einmitt eitt afskaplega skemmtilegt fyrir um daginn þegar heilinn var ekki sérlega virkur. Ég fór með Frekjunni á Ölstofuna í síðustu viku, klukkan var rétt um tíu og það var setið á flestum borðum en ekki öllum. Við vorum að spjalla um hitt og þetta, eins og fólk gerir og útundan mér var ég að fylgjast með hóp af mönnum sem voru að safnast saman nánast við hliðina á borðinu okkar. Þeir voru greinilega samstarfsmenn af einhvers konar tegund og of margir til að rúmast á einu borði allir saman. Þeir stóðu því í hnapp með bjórglösin sín og spjölluðu um einhvers konar torkennilega hluti eins og gröf og mælieiningar og burðarþol ... þeirra málsnið var svo allt, allt annað en mitt að ég hlustaði bara ómeðvitað en heyrði ekki það sem þeir voru að segja, skildi þá sumsé ekki þannig að orðin flæddu bara umhverfis okkur Frekjuna og við héldum spjallinu okkar áfram.


Svo allt í einu sé ég útundan mér þar sem einn maðurinn lyftir upp hægri hendinni og mér finnst hann benda með henni á mig og segja: "sjáið þessa kúrfu hérna" og ég móðgaðist þetta þvílíkt! Ég hvítnaði af hneykslun! Hvernig vogaði hann sér að kalla mig þetta!! Hann þekkir mig ekki neitt og veit ekkert hver ég er! Ég er líka viðskiptavinur á þessum stað og það hefur enginn rétt til að kalla mig ljótum nöfnum!! Hver heldur hann eiginlega að hann sé?!

Svo fattaði ég að ég væri líklega bara búin að vera of mikið í vinnunni undanfarið.

Í vinnunni minni heyri ég nefnilega oft orðið kúrfa nema það er skrifað kurva og sagt á útlensku, það er eina orðið sem ég skil í annars torkennilegum orðaflaumi en ég veit að orðið kurva er niðrandi og ljótt orð og er ósjaldan notað um konur og oft beint sérstaklega til mín ;)

Rosalega fannst mér þetta fyndið þegar ég hafði jafnað mig á hneyksluninni ... og eftir að ég hafði sagt Frekjunni frá misskilninginum (hún sá auðvitað á svipnum að mér var skyndilega ekki skemmt) flissuðum við báðar eins og smástelpur í hvert sinn sem mennirnir notuðu orðið kúrfa :)

Gaman að þessu, en kannski hefðuð þið þurft að vera þarna? ;)


Góðar stundir

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

haha já maður misskilur margt...sérstaklega fólk sem talar nördamál :)

Nafnlaus sagði...

haha já maður misskilur margt...sérstaklega fólk sem talar nördamál :)

Syneta sagði...

Nákvæmlega! :D

Deeza sagði...

Hey, hvernig veistu hvor endinn er vinstri endinn?

Syneta sagði...

Vinstri endinn er að sjálfsögðu sá endi sem er vinstra megin ... ég geri amk ráð fyrir að ég hafi verið að meina það? Annars er þetta skrifað fimm um morgun og þá virðist ýmislegt vera skynsamara en það er undir öðrum kringumstæðum ;)

Deeza sagði...

Já... en sko ef maður snýr pakkanum við þá er hinn endinn orðinn vinstri endinn... hvað þá?

Syneta sagði...

Hmmm ... þá byrjarðu á röngum enda er ég hrædd um :/