Fór með bílinn í viðgerð á miðvikudaginn, smá vesen að keyra hann því 2. gír var týndur og bakkgírinn tröllum gefinn en það var eiginlega erfiðast að koma honum af stað því hann var frosinn við götuna :) hann er svo kraftlaus að ég varð að stinga fætinum út og losa bílinn :) það var ekki mikið mál, ég er svo sterk ... svo er bíllinn auðvitað svo mikið peð að ég get stungið honum í vasann ef ég finn ekki bílastæði, en það kemur aldrei fyrir, Ari passar alls staðar:)
ég er mjög hrifin af Ara og mér er farið að finnast það bara sætt hvað hann er lítill og kvenlegur, kannski er ég að verða gömul, mér hefur aldrei þótt bílar sætir - í mesta lagi "vinalegir til augnanna" eins og gömlu 1200 Lödurnar með kringlóttu augun:) en ég er ekki sú eina sem held uppá Ara því Þorsteinn stórmeistari og Brimborgarmilliliður fannst uppsetningin á gírkassanum og gírstönginni stórmerkileg, "það þurfti að skipta um svo margt!" - hann teiknaði meira að segja mynd fyrir mig :) svo spurði hann mig um bílinn, hvernig væri að keyra hann og hvort hann væri eitthvað að bila og þannig:) kannski er hann að hugsa um að kaupa sér einn svona sjálfur? ég mæli amk með því :)
ég fór til tannlæknis á mánudaginn og hann skipti um fyllingu í einni tönninni og varaði mig við því að ég myndi finna kul í tönninni í einhvern tíma ... ég fann kul, en orðið "kul" nær eiginlega ekki til tilfinningarinnar eftir að deyfingin fór:) mér leið eins og hefði verið kýld með grjóti og var bólgin þannig að fólk tók eftir því ... ég er ekki orðin alveg bólgulaus ennþá en ég var að taka eftir því að það er að framkallast mar á kinninni, hélt ég væri bara skítug eftir eitthvað en þetta næst ekki af :( annað skiptið á þessu ári sem stórsér á andlitinu á mér og ég lít út fyrir að hafa lent í slagsmálum:)
og meira sem er bilað á mér, ég er með harðsperrur í handarbökunum og ristunum eftir æfingu síðasta miðvikudag, það tekur nefnilega á mjög furðulega vöðva að ganga bjarnagöngu:) hlekkurinn er fyrir alla þá sem segja "ha" og biðja um sýnikennslu ... á veitingastöðum :)
... og bregðarinn minn er ennþá týndur, kona í vinnunni stakk upp á því að ég fengi mér kærasta til að hætta að vera svona hvumpin ... mér finnst það ekki góð hugmynd, síðast þegar ég gáði voru strákar almennt stríðnispúkar og þegar þeir fatta að þér kitlar þá er það nýja áhugamálið að komast að því hversu mörg kítl framkalla barsmíðar :)
... en ekki misskilja mig, mér finnst stríðni mjög vanmetin - stundum þegar samskipti mín við aðra verða ofsalega flókin, aðallega vegna þess að ég á það alltof oft til að misskilja hvað er "í gangi", þá sakna ég gömlu góðu daganna þegar strákar sýndu tilfinningar sínar með því að toga í hárið á stelpunum eða stela húfunni þeirra ...
Útiæfing í fyrramálið, býst við að ég muni gleðja mannskapinn með endalausu gelti í þessu frosti en ég ætla samt að mæta því fyrst astminn kom þá getur hann farið og mér er ráðlagt að slá ekki af ef ég get haldið áfram - innan skynsamlegra marka, auðvitað;)
... og að gefnu tilefni (hef fengið ákveðna spurningu merkilega oft undanfarið ...) og í ljósi þess ofansagða þá, nei, ég hef aldrei fundið fyrir astma við "nánar kringumstæður" (fólk á öllum aldrei les þetta blogg held ég:)) því þá ræð ég hraðanum, og taktinum, sjálf, það er enginn með flautu sem heimtar frosk eftir frosk á milli hoppa og hlaupa - allt, allt annar handleggur - og þá vitið þið það :)
Lifið heil, verið hraust og góð hvert við annað
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Mér finnst þú vera frábær.
Hvaðan kemur eiginlega þetta heiti, Bjarnagöngur? Ætli fyrsti maðurinn sem gekk svona hafi heitað Bjarni? Og ég er skíthrædd við tannlæknirinn þinn, hann hljómar eins og versti fantur.....
Annars er ég sammála síðasta ræðumanni og finnst þú vera frábær líka...
Skrifa ummæli