Ég er ekki nægilega vel að mér í sögu til að segja frá því hvenær (eða hvort) samkomubann hafi áður verið hér á landi. Mér finnst eins og hafi lesið um slíkt þegar Spænska veikin gekk yfir um 1920 en ég veit ekki hvort það er rétt. Né heldur hvernig borgarbúar tóku því. Kannski mundi ég vita það ef ég læsi fjölmiðla af einhverju viti?
Þetta eru væntanlega líka upplýsingar sem ég ætti að geta flett upp en, kalt mat; þær skipta ekki máli akkúrat núna.
Það er samkomubann á Íslandi í mars 2020. Það er verið að telja inn í verslanir. Messum, tónleikum, sýningum og alls konar viðburðum hefur verið frestað og aflýst næstu vikurnar og það gera allir sitt besta að forðast alla hina. Fyrir innhverft fólk eins og mig skiptir þetta ekki svo miklu máli. Undanfarið hef ég meira að segja verið að grínast með að ég hafi verið að æfa mig fyrir þessar aðstæður allt mitt líf. Einvera hræðir mig ekki en einvera verndar ekki heldur og fyrir suma er hún hrikaleg. Eins er óvissan hrikaleg. Hvernig smitast veiran nákvæmlega? Hvers vegna verða sumir bara slappir en aðrir deyja? Hvers vegna er ekkert annað í fjölmiðlum og endalaust verið að hamra á hversu margir hafi smitast og dáið? En hvernig væri hægt að vara alla við ef það væri ekki stöðugt verið að búa til fréttir um ástandið? Hvenær lýkur þessu? Hvernig verður sagt frá þessu tímabili í sögubókum framtíðarinnar? Hvers vegna óttumst við þessa veiru svona mikið en hunsum þær 300 milljónir sem veikjast af malaríu á hverju ári? Milljón einstaklingar deyja árlega út malaríu og flestir sem deyja eru börn undir fimm ára aldri. Rúmlega 9 milljónir deyja úr hungri, 25 þúsund á dag og 75 milljónir hafa sýkst af HIV frá upphafi þess faraldrar og þrátt fyrir ný lyf og tækniframfarir deyja enn 140 þúsund á ári úr fylgikvillum HIV.
Vesturlönd eru séra Jón og sömuleiðis gagnkynhneigðir, fullorðnir Vesturlandabúar. Það er líklega svarið. Ég er séra Jóna. Ég þvæ mér um hendurnar, hósta í olbogabótina eins og venjulega og knúsa ekki fólk sem er lasið. Ekki frekar en venjulega. Og í staðinn fyrir að fylgjast með fréttum safna ég þjóðfræðiefni um Covid 19, lögum til að syngja í 20 sekúndna handþvotti og klósettpappírsbröndurum. Ég skoða spegilmynd óttaslegins samfélagsins sem er í upplausn og hlæ.
Lifið heil og hraust.
Góðar stundir.