miðvikudagur, október 24, 2007

Hversu mörg egg sjóðið þið í einu? Ég hélt það væri ekki hollt að borða meira en eitt í einu? ... og ég var svona lengi með bakkann því mér fannst svo sorglegt hvað ég var lélegur kokkur að ég borðaði yfirleitt túnfiskinn egglausan og uppúr dósinni;)

og takk öll fyrir kommentin!! ég er ekki nægilega góð í þakka fyrir mig en mér finnst frábært, æðislegt að fá komment:)

Ég tók popp heim úr vinnunni áðan og hugsaði að við Fídel myndum kúra í kvöld, borða popp undir teppi og hafa það kósí inni í hlýjunni og hlusta á rigninguna ... svo var ég stopp á ljósum og opnaði blessaðan pokann til að fá mér tvö, bara tvö ... en það sem var eftir í pokanum þegar ég kom heim var ekki uppí nös á ketti;)

"gerir ekkert til," hugsaði ég, ef ég er ekki að borða popp get ég einbeitt mér að því að knúsa og klappa Fídeli, hann er búinn að vera svo mikið einn undanfarið að hann á skilið að fá óskipta athygli mína eitt kvöld, bara vera góð við hann eitt kvöld og hræða hann ekki með skrjáfi í popppoka:)

jújú, kem heim, opna inn, fer inn í eldhús með kisumat, legg frá mér poka í stofunni, loka útidyrahurðinni, fer aftur inn í eldhús og set vatn í potta og byrja að undirbúa kvöldmatinn - á meðan ég er að bardúsa í eldhúsinu er Fídel að mjálma frammi og ég tala við hann á fullu eins og klikkaðri kattarkonu sæmir, "já, loðkúturinn minn, ég er loksins komin heim" og "eigum við ekki bara að hafa það kósí í kvöld, litli kall?" og alltaf svarar hann mér með háværu mjái svo hætti ég að tala því ég var búin að segja allt sem mér datt í hug og var farin að endurtaka mig. En þó ég hætti að tala heldur hann áfram að mjálma og mjálmar sífellt "vælulegra" ... hann mjálmar yfirleitt ekki vælulega þannig að ég fer að tékka á honum en finn hann hvergi!!!

hvað haldiði að ég hafi gert? mér er ekki viðbjargandi - ég át nammið á leiðinni heim og læsti svo litlu kisuna mína, sem ég ætlaði að sinna svo óskaplega vel, frammá gangi!!

ég kem betur fram við óvini mína! :)

en að öðru, ég er ekki sérlega klár í íslensku en ég þekki algera snillinga sem margir hverjir lesa bloggið mitt og mig langar til að spyrja að einu:
er viðtengingarháttssýki til?

ef svo sé, endilega látið mig vita, þetta hljómar svo asnalega;)

lifið heil

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ætti kannski að láta Fídel fá farsíma! Hann gæti þá allavegna hringt og látið vita þegar svona atvik koma upp ;-)

Nafnlaus sagði...

Aumingjans litli Fidel sem hefur verið að taka svo vel á móti þér og svo lokaru bara á hann..hahahahahaha held samt að hann jafni sig alveg á þessu.
Ég sýð yfirleitt 1-3 egg eftir því hversu mikið ég er að fara að búa til...1 egg soðið í morgunmat, 2 egg í salat eða á brauð seinna.

Nafnlaus sagði...

viðtengingarháttssýki????

Hey, það er lágmark að segja viðtengingarháttarsýki - og spurningin er góð. Ég hugsaði strax: hey, nei, en 4 sekúndum síðar áttaði ég mig á að þetta er rétta sjúkdómsgreiningin á setningum eins og: Ef ég SÉ búin að gefa kettinum (hættir hann að mjálma). Sem sagt, sýkin sem þú nefnir er til en þú varðst fyrst til að gefa henni nafn.

Og þetta með íslenskusnillinga sem lesa bloggið þitt .. ég tek það beint til mín ....... en ég var alveg við það að geispa lestrargolunni í langa hléinu þínu. Það er þó ekki ástæðan fyrir seinu svari núna, heldur að ég var í Madríd (að hlaða málfarsbatteríin í kompaníi við Kristin R. Ólafsson, hehe).

Berglind

Nafnlaus sagði...

Það er á kristaltæru að viðtengingarháttarsýki er til og hrjáir aðallega lögfræðinga. En ég veit fyrir víst að þú ert ekki lögfræðingur (og verður vonandi aldrei) enda ekki einu sinni með snert af umræddri sýki.