miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Jú, varðandi 23. febrúar ... honum hefur verið seinkað:)

Ekki deginum sjálfum, ég geri ráð fyrir að hann renni upp bjartur og fagur á milli 22. og 24. febrúar, en ég er upptekin núna 23. febrúar - það er þorrablót í vinnunni og skipulagningin á hinu var ekki komin sérstaklega langt ... en það kemur önnur helgi eftir þessa og ég skal láta ykkur vita með jafnmiklum fyrirvara að taka daginn frá:)

dagurinn í gær var afskaplega góður allan daginn nema í svona tvo tíma inná milli þar sem mér tókst að:
skrækja eins og smástelpa
blóðga hundinn - að vísu var það annar hundur sem sá um það að gera sárið og ég gekk á milli eins og hetja til að stöðva slaginn en ég var með hundinn í göngutúr og bar þar af leiðandi ábyrgð á að hann kæmi óskaddaður heim. Hann er í sjálfu sér alveg óskaddaður því þetta var bara smá sár á augabrúninni en samt, það kom blóð á minni vakt:(
kaupa vitleysu í búðinni - ég á ekki að versla. Ég kann ekki að versla og þrátt fyrir að hafa stundað verslunarferðir í mörg ár er ég ekki enn búin að ná tökum á þessu og er jafnvel að hugsa um að sleppa því framvegis að fara út í búð. Fyrir utan hvað kerrurnar í ónefndnri búð eru asnalega stórar (nei, það eru ekki til körfur í þessari verslun) þá eru þær alltof gagnsæjar þannig að það sést greinilega hvað ég er að kaupa. Í gær var kerran sérlega vandræðaleg. Kisusandur, mýs fyrir kisur (ég hef sagt það áður, þrátt fyrir að vera ekki sérlega mikil kattarkona þá er ég hættulega nálægt því að vera skilgreind sem crazy-cat-lady), gæludýraharðfiskur, klósettpappír 12-í pakka (alltof mikið fyrir mig og endist endalaust en ég hata að kaupa klósettpappír og geri það eins sjaldan og ég mögulega get), ein frosin Ömmupizza og tyggjópakki (því ég hafði farið á kassann áður en ég mundi eftir því að mig vantaði stíflueyði) ... sorgleg, sorgleg innkaupakarfa ...
sýna almenningi þúfnahöfuð eins og ekki hefur sést áður meðal manna - hárið á mér verður eins og þúfa við minnsta hnjask ef það er á einhvern hátt "hamlað", eins og til dæmis með teygju eða spennu eða þvíumlíkum tækjum. Með orðinu hnjask á ég við flestar hreyfiathafnir eins og til dæmis að anda.
Hnjask gærdagsins var sumsé teygja í taglinu, tvær spennur, húfa ofaná allt saman, göngutúr með hundinn, hundaslagsmál og hundaþurrkun með handklæði og nokkur hundaknús, í búðinni klæjaði mig líka aðeins fyrir ofan eyrað og ég klóraði mér í gegnum þykku flíshúfuna sem ég bar á höfðinu ... ég sá mig ekki í spegli þegar ég álpaðist til að lyfta húfunni af mér en miðað við allt sem gekk á áður en mér varð skyndilega heitt á höfðinu (þegar ég varð fyrir næsta atriði) og tók af mér húfuna get ég rétt ímyndað mér hvernig ég leit út. Eftirá að hyggja hefur þessi húfuaftaka ekki verið alslæm (sjá atriði á eftir því næsta til að lesa um hið slæma sem hún hafði í för með sér) því kannski væri ég enn að hlusta á manninn?
fengið að heyra sögu bláókunnugs manns - ekki kúnna úr vinnunni heldur manns sem var að versla í sama stórmarkaði og ég. Sagan innihélt að minnsta kosti tvö dauðsföll (eða nokkur þúsund ef skordýr teljast með), eiginkonan sem dó úr krabbameini í haust og kötturinn sem var fargað í síðustu viku vegna óværu á heimilinu undanfarna mánuði ... afhverju fæ ég svona oft að heyra ævisögur ókunnugra? Ef þú værir í sakleysi þínu að leita að stíflueyði og svo færi maðurinn við hliðina allt í einu að ræða skordýraeitur og endaði á því að fallega fjórlita læðan hans var svæfð (eða fargað eins og hann orðaði það), hvað myndirðu gera? Ef fólk talar svona við ókunnuga í stórmarkaði getur vel verið að enginn sé til staðar til að hlusta þannig að auðvitað hlustaði ég, ég er með tvö eyru. En mér varð heitt á höfðinu. Ég lyfti af mér húfunni og ...
dauðskammaðist mín í 100asta skiptið á ævinni frammi fyrir sama manninum - þetta er merkileg staðreynd en flestir gera sig að fífli fyrir framan sama einstaklingunum. Einn vinur minn til dæmis var mjög fínn strákur en ef hann var að gera eitthvað heimskulegt var eiginlega hægt að bóka það að pabbi kæmi að honum. Ég er búin að þekkja einn strák síðan ég var krakki og það er eiginlega hægt að gera ráð fyrir því að ég hitti hann aldrei nema ég sé að gera einhverja gloríu eða segja eitthvað fáránlegt ... ég roðna bara til tilhugsunina um allt sem hann hefur orðið vitni af í fari mínu um ævina:) ég tók sem sagt húfuna af mér, lít upp og sé hann koma inn ganginn, brosandi við hlið kærustunnar (sem er módel by the way), með fulla kerru af heimilslegum vörum, ég brosi á móti og finn hvernig hárið á mér stendur upp og niður í skrúfum og úfi, eldroðna, skelli húfunni aftur á höfuðið á mér, lít niður í crazy-cat-lady-kerruna mína og í því sem hann gengur framhjá segir ekkillinn með dauða köttinn:

... og ég er allur rauður og stífur eftir svefnlausar nætur ...

og þegar æskuvinur minn er farinn framhjá bætir hann við

... þess vegna er ég að leita að almennilegu skordýraeitri.


Takk fyrir lestur og söng, amen.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég grét innrqa með mér þegar ég las þessa sögu, fyrst af samúð en svo úr hlátri

Gummi

Nafnlaus sagði...

æi stundum er maður einfaldlega klúðurslegur.....ég háöldruð konan upplifi það ennþá að roðna algerlega upp úr og niður úr þegar ég geri eitthvað kjánalegt....eða hugsa eitthvað sem ég ætti ekki að hugsa.

Lára sagði...

Ó Guðrún, þér tekst alltaf að fá mig til að brosa!
Sammála Gumma - er komin með krampa í magann af hlátri og tárin leka - því alltaf þegar ég les sögurnar þínar hérna þá hugsa ég ósjálfrátt um "fatasöguna" og þá verður allt helmingi fyndnara!

Nafnlaus sagði...

Já ég gleymdi að hæla þér. Þetta er með betri bloggfærslum sem ég hef lesið. Þú ert ansi góður lyklaborðsnotandi :)

Nafnlaus sagði...

Hættu bara að fara í Krónuna, dýraharðfiskur fæst ekki í Bónus. Og þó, ef svona verslunarferðir verða þér uppspretta skemmtisagna er óábyrgt af mér að hvetja þig til breytinga.

Og hversu lengi var 23. febrúar frestað? Ég var í brjáluðu afmæli í gær - hvernig var þorrablótið þitt? Mætti nokkur með kaðal?

BerglindSteins

Nafnlaus sagði...

Það fæst reyndar oft gæludýraharðfiskur í Bónus á Laugavegi.

Hvaða skordýr voru það sem eitrið átti annars að drepa?

Tinna vinkona þín sagði...

sko, þessi færsla er á við heilt handrit að rómantískri gamanmynd. reyndi skordýraeitursmaðurinn að bjóða þér á deit?

Nafnlaus sagði...

Ó, ég var að meina þá Bónus-búð. Sannast bara að ég er ekki mikið á vaktinni.

BerglindSteins