miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Góðan og blessaðan,

mig vantar að komast í samband við einhver sem kann færeysku, þarf ekki að geta talað hana óaðfinnanlega bara nægilega vel til að geta þýtt nokkrar setningar fyrir mig:)

það er verið leita að nöfnum á menn í fótboltaliði frá árinu 1951, þeir eru saman á ljósmynd og fólk er að segja hver er hvað en ég skil ekki hvar hver er ... til dæmis:

Mittastaræð undir liðin av dámuni:
Mikkjal Houmann (Mikkjal post)

hvar er Mikkjal post? svarið sem kemur er svo enn undarlegra:

Eg meini hatta er Heri Mortensen, fyrrv. stjóri á Atl. Airways.

ég skil þetta alveg, gleymir hann ekki bara að segja hvar Heri er á myndinni? og að lokum:

Aftasta ræð undir liðuni á dámuni er mervin Dimon

... hvað þýðir av dámuni og á dámuni?

þekkið þið færeying eða færeyskumælandi einstakling? :)

Lifið heil

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Ég er ekkert hætt að blogga, alls ekki, ég er alltaf að semja blogg í kollinum á mér sem komast aldrei á skjáinn :)

... sem er synd því þetta eru ofsalega skemmtileg blogg, svo skemmtileg að ég sit á ljósum eða er uppá fjalli eða í sturtu eftir æfingu og hlæ undurlágt með sjálfri mér eða brosi eins og ég hafi fundið fimmþúsundkall í gömlum jakka - hef ég minnst á það að ég hef ekki eignast nýja vini undanfarið? :)

annars er ég farin að hafa smá áhyggjur af sjálfsmynd minni og að hún sé fáránlega skekkt, mér finnst ég nefnilega alveg vera í lagi og jafnvel frekar sæt svona in a certain angle and in certain light svo ég kvóti nú manninn sem mig langar aldrei til að hitta því ég þekki sjálfa mig, eins og fram hefur komið - en þekki ég sjálfa mig svona "utaná"? myndi ég þekkja mig ef ég sæi sjálfa mig á gangi eftir götu? mig er nefnilega farið að gruna að ég sé með anti-anorexíu!! Fólk með anorexíu finnst það alltaf vera of feitt sama hvað mælingar sýna mér finnst ég hins vegar vera alveg í lagi þó ég sé ekkert endilega grönn eða horuð en mælingarnar mínar sýna allt annað!! ég er ekkert meðalmanneskja á blaði eins og mér finnst ég vera inní mér heldur er ég of feit og á sumum töflum horfir þetta til vandræða, ég á það á hættu að verða bráð hinna ýmsu sjúkdóma fyrir utan að eiga að ræða við lækni minn áður en ég fer að stunda cardio-æfingar til að vera viss um að hjartað í mér þoli álagið ... og að þessu kemst ég daginn sem ég tek heila æfingu án eins einasta gelts, en það hefur ekki komið fyrir síðan í haust :)

ég er að hugsa um að hætta að skoða heimasíður og lesa mér til um heilsu og líkamsrækt því það sem ég er að gera núna virkar, þetta er nefnilega allt spurning um déennaið okkar (DNA) - ég held að frumurnar í mér þekki eggaldin og kúrbít ekki sem mat því pabbi minn borðaði aldrei epli nema á jólunum og afi minn smakkaði ekki kartöflu fyrr en um fermingu ... hvernig í ósköpunum eiga genin í mér að skilja að salat með fetaosti, furuhnetum og sólþurrkuðum tómötum sé matur? hvað vorum við margar milljónir ára að koma okkur uppúr sjónum, uppí tréin og niður úr þeim aftur? hversu margar kynslóðir sjómanna og bænda á eyjum norður undir heimskautsbaug lifðu ágætu lífi án þess að þekkja kosti tófú og soya? svo kem ég, langaftast í keðjunni og ætla að vera grænmetisæta ... kannski ekki skrítið að ég skuli vera með ofnæmi fyrir öllu, Pétri og Páli - en ég borða ekki súrmat, hann er ógeðslegur:)

en þetta er útúrdúr :) þið hafið eflaust engan áhuga á því hvað ég borða og hverjar mínar pælingar eru varðandi mat því þær eru ekki sérlega meinstrím - en ég þekki stelpu sem borðar ekki kjúkling og lambakjöt því hún borðar ekki huglaus dýr, hún borðar hvalkjöt, hross og nautakjöt því það eru hugrökk og hraust dýr :) alls ekki slæm pæling ef þú trúir því að þú sért það sem þú borðar :)

það sem ég ætlaði að segja er að ég ákvað að breyta til í janúar og sagði upp í vinnunni en nú hafa málin æxlast þannig að ég hætti ekki fyrr en næstu áramót, uppsagnarfresturinn lengdist aðeins umfram þessa lögbundnu þrjá mánuði en til að breyta einhverju samt þá skráði ég mig í skólann, á miðri önn og þegar ég er ekki í vinnunni, með hundinum, vinunum, á æfingu eða sofandi þá er ég að lesa upp allt sem ég hef misst af síðan í byrjun janúar þegar allt annað vitiborið og skynsamlegt fólk byrjaði :) ... svo er ég líka á ræðunámskeiði sem þarf að læra fyrir þannig að það er alveg nóg að gera og þess vegna hef ég ekki bloggað í háa herrans tíð, ég er ekki hætt:)

bíðið bara þegar kemur að ritgerðaskrifum og prófum verð ég virkari sem aldrei fyrr, það er alltaf í byrjun annar sem ég er duglegust ... minnir mig :)

Góðar stundir og notið sólgleraugu við akstur

föstudagur, febrúar 09, 2007

Fór með bílinn í viðgerð á miðvikudaginn, smá vesen að keyra hann því 2. gír var týndur og bakkgírinn tröllum gefinn en það var eiginlega erfiðast að koma honum af stað því hann var frosinn við götuna :) hann er svo kraftlaus að ég varð að stinga fætinum út og losa bílinn :) það var ekki mikið mál, ég er svo sterk ... svo er bíllinn auðvitað svo mikið peð að ég get stungið honum í vasann ef ég finn ekki bílastæði, en það kemur aldrei fyrir, Ari passar alls staðar:)

ég er mjög hrifin af Ara og mér er farið að finnast það bara sætt hvað hann er lítill og kvenlegur, kannski er ég að verða gömul, mér hefur aldrei þótt bílar sætir - í mesta lagi "vinalegir til augnanna" eins og gömlu 1200 Lödurnar með kringlóttu augun:) en ég er ekki sú eina sem held uppá Ara því Þorsteinn stórmeistari og Brimborgarmilliliður fannst uppsetningin á gírkassanum og gírstönginni stórmerkileg, "það þurfti að skipta um svo margt!" - hann teiknaði meira að segja mynd fyrir mig :) svo spurði hann mig um bílinn, hvernig væri að keyra hann og hvort hann væri eitthvað að bila og þannig:) kannski er hann að hugsa um að kaupa sér einn svona sjálfur? ég mæli amk með því :)

ég fór til tannlæknis á mánudaginn og hann skipti um fyllingu í einni tönninni og varaði mig við því að ég myndi finna kul í tönninni í einhvern tíma ... ég fann kul, en orðið "kul" nær eiginlega ekki til tilfinningarinnar eftir að deyfingin fór:) mér leið eins og hefði verið kýld með grjóti og var bólgin þannig að fólk tók eftir því ... ég er ekki orðin alveg bólgulaus ennþá en ég var að taka eftir því að það er að framkallast mar á kinninni, hélt ég væri bara skítug eftir eitthvað en þetta næst ekki af :( annað skiptið á þessu ári sem stórsér á andlitinu á mér og ég lít út fyrir að hafa lent í slagsmálum:)

og meira sem er bilað á mér, ég er með harðsperrur í handarbökunum og ristunum eftir æfingu síðasta miðvikudag, það tekur nefnilega á mjög furðulega vöðva að ganga bjarnagöngu:) hlekkurinn er fyrir alla þá sem segja "ha" og biðja um sýnikennslu ... á veitingastöðum :)

... og bregðarinn minn er ennþá týndur, kona í vinnunni stakk upp á því að ég fengi mér kærasta til að hætta að vera svona hvumpin ... mér finnst það ekki góð hugmynd, síðast þegar ég gáði voru strákar almennt stríðnispúkar og þegar þeir fatta að þér kitlar þá er það nýja áhugamálið að komast að því hversu mörg kítl framkalla barsmíðar :)

... en ekki misskilja mig, mér finnst stríðni mjög vanmetin - stundum þegar samskipti mín við aðra verða ofsalega flókin, aðallega vegna þess að ég á það alltof oft til að misskilja hvað er "í gangi", þá sakna ég gömlu góðu daganna þegar strákar sýndu tilfinningar sínar með því að toga í hárið á stelpunum eða stela húfunni þeirra ...

Útiæfing í fyrramálið, býst við að ég muni gleðja mannskapinn með endalausu gelti í þessu frosti en ég ætla samt að mæta því fyrst astminn kom þá getur hann farið og mér er ráðlagt að slá ekki af ef ég get haldið áfram - innan skynsamlegra marka, auðvitað;)

... og að gefnu tilefni (hef fengið ákveðna spurningu merkilega oft undanfarið ...) og í ljósi þess ofansagða þá, nei, ég hef aldrei fundið fyrir astma við "nánar kringumstæður" (fólk á öllum aldrei les þetta blogg held ég:)) því þá ræð ég hraðanum, og taktinum, sjálf, það er enginn með flautu sem heimtar frosk eftir frosk á milli hoppa og hlaupa - allt, allt annar handleggur - og þá vitið þið það :)

Lifið heil, verið hraust og góð hvert við annað

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Það er nauðsynlegt að læra eitthvað nýtt á hverjum degi, ef þið lærið ekki eitthvað nýtt er gott að rifja eitthvað upp eða komast að einhverju um ykkur sjálf - núna verður smá kennslustund:

Eitthvað nýtt: Kárahjnúkar eru skrifaðir svo fyrir norðan en Kárahnúkar fyrir sunnan, þetta á við um alla hnjúka/hnúka landsins - þeir eru með joði fyrir norðan en ekki fyrir sunnan, samanber Hvannadalshnúkur fyrir sunnan:)

Eitthvað gamalt:


rifjið upp hvernig þetta virkar allt saman, þið getið lesið um nánar um "vinnsluna" hérna

og að lokum, eitthvað sem ég er nýbúin að læra um sjálfa mig: bregðarinn í mér hefur alltaf verið frekar stuttur en hann er eiginlega horfinn núna - mér er sagt að fólki sem bregður hafi eitthvað á samviskunni, ég hef ekki hugmynd um hvað ég er að fela en kannski verður það næsta staðreynd um sjálfa mig - nema það sé of skuggalegt auðvitað:)

Góðar stundir

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Jæja gott fólk, ég var að koma af Little Miss Sunshine og ég held ég verði með harðsperrur í maganum og kinnunum í fyrramálið:) hrikalega fyndin mynd sem ég mæli hiklaust með og skil vel allar tilnefningarnar:)

ég er að fara að sofa því ég hef ekki gert nóg af því undanfarið en mig langar til að lesa nýtt Faranda-blogg þannig að ég ætla að skrifa eitthvað fyrir háttinn - ég er líka ennþá að flissa eftir myndina:)

í síðustu viku lærði ég nýtt orð, gúmmígeit, það er í uppáhaldi hjá mér núna og ég bendi fólki hiklaust á allar gúmmígeiturnar sem verða á vegi mínum:) það er notað yfir léttar gröfur á dekkjum - léttar as in ekki í tveggja stafa tonnatölu (aka meira en 10 tonn:)) en ekki léttar í neinum öðrum skilningi:)

ég er búin að vera ofsalega upptekin undanfarið, merkilegt hvernig þetta kemur í bylgjum - það er ekkert svo langt síðan ég ákvað að ég hefði tíma til að púsla 4000 púsla púsluspili, kannski gerði ég mér ekki grein fyrir hvað svoleiðis tekur langan tíma en púslið liggur ennþá inní stofu og ég er ekki búin með einn fjórða:) ég hélt ég hefði tíma til að vera duglegri en hann hefur greinilega farið í annað ... tíminn sko, en ég er að hugsa um að taka það saman á morgun, þetta gengur ekki, lítur illa út að hafa það svona hálfklárað og kötturinn er farinn að hneyklast á mér - og það sem er verra, ég held að hann sé farinn að púsla sjálfur þegar ég er ekki heima og hann kann það ekki, hann lemur bara á púslin sem passa ekki og neyðir þau í plássin þannig að þau aflagast og verða ljót ... ég vil ekki hafa af honum skemmtun þannig að á morgun ætla ég að kaupa púsl fyrir hann sjálfan og taka mitt til, kannski finn ég púsl með myndum af músum? eða senjórítum? :)

bílinn minn er ennþá bilaður og í morgun hvarflaði það að mér að ég hefði kannski ekki efni á að borga fyrir viðgerðina - hafið þið einhverja hugmynd um hvað lausar gírstangir kosta eigendurna?

hvað heita skeifurnar sem hestar nota á veturna? eru þær ekki öðruvísi en sumarskeifur? afhverju finnst mér eins og snjóskeifur heiti skaflar? og afhverju er ég að velta því fyrir mér nánast um hánótt? :)

lifið heil