mánudagur, október 30, 2006

Eftir hádegi ...

... dagurinn er ekkert minna furðulegur núna. Yfirmaður minn tilkynnti mér að ég mætti fara á námskeið sem mig langaði til að fara á í vinnunni, ég fagnaði innilega og ég er ekki frá því að ég hafi klappað nokkrum sinnum. Það kemur stundum fyrir að ég gleymi mér í gleði eins og þegar ég sá Mýrina í síðustu viku, þegar myndin kláraðist klappaði einhver í salnum og ósjálfrátt klappaði ég líka með af innlifun.

Námskeiðið virkar ofsalega spennandi og ég hlakka mikið til, það heitir Pappír: eiginleikar og umgengni
... kannski er kominn tími til að skipta um vinnu ef pappír kallar fram fagnaðarlæti?

... pappírablæti?

þetta rímar:)

Góðar stundir
Gleðilegan mánudag litlu rúsínurnar mínar:)

... þetta er búið að vera mjög furðulegur dagur og það er ekki einu sinni komið hádegi ...

Ég heyrði ekki í vekjaraklukkunni og vaknaði við að mamma hringdi í mig. Að fenginni reynslu gengur mér nefnilega ekki alltaf vel að vakna á mánudagsmorgnum og þó ég hafi farið snemma að sofa í gærkvöldi og sleppt fótboltaæfingu til að geta sofið lengur munaði minnstu að ég svæfi yfir mig. Ég þakkaði mömmu kærlega fyrir að hringja, bað hana að hringja aftur eftir fimm mínútur og skellti á hana. Mitt fyrsta verk í morgun var sem sagt að snooza mömmu mína.

Í gær fór ég með litlu frænkur mínar í Smáralindina og útvarpið var ennþá stilllt á Útvarp Latabæ í morgun. Á leiðinni í vinnuna hlustaði ég á Stumpa Disco Extended Remix Version ... lagið hljómar sem sagt eins og Diskó friskó nema þú skiptir "friskó" út fyrir orðið "strumpa", sömuleiðis öllum öðrum orðum sem ekki eru samtengingar, forsetningar eða smáorð ... svo tóku Strumparnir ekki eingöngu sönginn upp heldur líka samræðurnar um hvernig lagið skildi hljóma þegar upptökunni væri lokið. Strumpadiskó hljómar enn í höfðinu á mér og ég skil ekki afhverju ég hafði ekki rænu á að skipta um útvarpsstöð.

Stuttu eftir að ég mætti í vinnuna mætti maður sem ég hef hingað til ekki haft annað sameiginlegt með en að vinna á sama stað. Hann tilkynnti mér að við værum nú orðin tengd eftir uppgötvun hans um helgina. Systir mín er gift manni sem er sonur manns sem er systkinabarn þessa samstarfsfélaga míns og þannig er ég nú tengd ættinni hans í gegnum systur mína. Hann sannaði þessi tengsl fyrir mér með því að sýna mér myndina af systur minni í Klingenbergsættarbókinni. Ég er skyndilega tengd Klingenbergsættinni, geri aðrir betur á mánudagsmorgni í október?

Furðulegheitunum er ekki lokið, ég opna póstinn minn og sé að "Leynilegur aðdáandi" hefur skilið eftir komment á síðunni minni. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim vini, spéfugli og mannvin sem er að þykjast vera aðdáandi minn kærlega fyrir þessa hvítu lygi. Það eykur óneitanlega á sjálfstraustið að ímynda mér að ég eigi leynilegan aðdáanda, sérstaklega í dag. Ég var svo þreytt í gærkvöldi að ég sofnaði með blautt hárið og var of þreytt í morgun til að fatta mistök mín og hárburstunarleysið fyrr en núna rétt í þessu þegar ég gekk framhjá spegli ... á leiðinni úr kaffi.

Lifið heil og verið góð við allt hitt fólkið

fimmtudagur, október 19, 2006

Ég á eina vinkonu sem er ofsalega fyndin og hress og skemmtileg:) Þegar við hittumst eða tölum saman hlæjum við yfirleitt um helming tímans og í sumum tilfellum allan tímann ... það hefur komið fyrir að ég hlæ allan tímann og hún hlær að því að ég er að hlæja:)

Þessi góða vinkona mín missti af skemmtilegasta atriði sjónvarpssögunar síðasta vor og af öllum endursýningunum, þegar ég hugsa um það fer ég að hlæja og hún hlær því ég hlæ ... en ég fann atriðið!! hvar annars staðar en á youtube.com

Þennan link tileinka ég Maju, njótið vel!



... og lifið heil:)

miðvikudagur, október 18, 2006

Ég er orðin blá:)

Ég hef alltaf verið mjög hrifin af bláum lit og mér fannst þessi appelsínuguli ekki vera "ég" ... að vísu var það template orðið svo gamalt að það hafði vissa sérstöðu, ekki margir með eins og þannig en mér finnst þessi litur miklu betri fyrir augað:)

Það datt að vísu ofsalega margt út þegar ég skipti um template þannig að endilega látið mig vita ef eitthvað sem tengist ykkur er dottið út:)

Hvernig finnst ykkur annars?

föstudagur, október 13, 2006

Ari og Hjólið



... er ég ekki margbúin að lofa mynd af Ara (nýja bílnum) og mótorhjólinu? Hjólið er að vísu orðið miklu vígalegra núna með aukahlutunum sem ég hef verið að kaupa á það, en ég á ekki mynd af því ennþá:)

Ari hefur greinilega ekki verið nægilega duglegur við að borða grautinn sinn:)

fimmtudagur, október 12, 2006

Jæja, rúsínurnar mínar, kominn fimmtudagur:)

Ég er ennþá lasin, lasnari ef eitthvað er. Þetta er flensa ... fór að lesa mér til um pestir á doktor.is og fann muninn á kvefi og flensu, samkvæmt öllu er ég með flensu, ég er því miður bara búin að vera með 39,5°C síðan á þriðjudaginn þannig að ég á enn eftir einn, tvo hitadaga, höfuðverkurinn er búinn að vera svo slæmur að ég er alltaf að láta hnéin snerta ennið bara til að vera viss um að ég sé ekki með heilahimnubólgu, vöðva- og liðverkir ... var að hugsa um að aflima fyrir neðan mitti í nótt:) ég ætlaði að falla á þrekprófi næsta laugardag (falla já, en sjá hvar ég stend sem er gott) en miðað við að slappleiki og þreyta geti varað í 2-3 vikur sýnist mér ég eiga eftir að falla á æfingum næsta hálfan mánuðinn og ég verð líklega með hita á laugardaginn hvort sem er ... ég var með stíflað nef og hágrét þangað til í gærkvöldi en það er batnað núna, ég hnerraði í morgun og mér er illt í hálsinum, þynglsin í brjóstkassa og hóstinn er ekkert grín, það hljómar eins og ég sé að trekkja eitthvað upp í hvert sinn sem ég anda að mér ... það var árleg bólusetning gegn flensu á þriðjudaginn í vinnunni, hjúkrunarkonan kom klukkan eitt en ég fór heim klukkan tólf ... ekki að ég hafi ætlað að fá bólusetningu, ég er með ofnæmi fyrir henni:)

ég veiktist á svipuðum tíma í fyrra ... og mér batnaði í janúar ... nenni því ekki aftur.

ofsalega margt sem ég hef ætlað að blogga um undanfarið en hef ekki haft tíma (ég á nefnilega alveg skilið að vera lasin miðað við svefnleysið, vinnuálagið og stressið undanfarið, en ég hefði kosið að fá kvef í staðinn fyrir flensu;)), þar á meðal er "fatasagan" sem ég hef sagt þó nokkuð oft síðan 28. september, Myrkvunarkvöldið, en ég er steinbúin að gleyma hverjum ég hef sagt hana? Ég fór á Akureyri síðustu helgi í fyrsta sinn á ævinni (ég fór í sund einu sinni þegar ég var 11 ára en man ekkert eftir því þannig að það telst ekki með:)) og skemmti mér konunglega, strákurinn í búðinni bauð okkur góða kvöldið á laugardagsmorguninn en það er ekki annað tímabelti á Akureyri, hann er bara vanur að vinna á kvöldin:) ég fékk að borða á Greifanum, skoðaði MA á sunnudegi, borðaði Brynjuís, fór í Jólahúsið, í Mollið, inná verkstæði SBA, horfði á hluta úr mynd með Meg Ryan sem breytti skoðun minni á saklausu ljóshærðu leikkonunni um aldur og ævi, bjargaði herðatréi, laumaði laumufarþega í kerru, keypti belti, tók myndir, hló upphátt að ölvuðum manni umkringum vinum sínum sem fannst sá ölvaði ekki eins fyndinn og ég, sá heimskasta ökumann Íslands utanvegar á leiðinni heim og skoðaði svo flottustu stofu landsins og þó víðar væri leitað ... hrikalega gaman og ég þakka samferðakonu minni og móttökunefndinni kærlega fyrir mig:) ... en þið vitið að núna á ég eftir að koma aftur?:)

það hefur tekið mig nokkra klukkutíma með hléum að skrifa þessa færslu en samt er hún samhengislaus, illa skrifuð og löðrandi í innsláttarvillum (mér er illt í fingrunum) ... ég vona heitt og innilega að mér hafi ekki tekist að smita neinn af þessum viðbjóði áður en ég veiktist??!!

Farið vel með ykkur öllsömul og verið góð við náungann, kannski viljið þið að hann komi með safa handa ykkur ef þið veikist:)

Lifið heil og hraust

þriðjudagur, október 10, 2006

Óska eftir bústýru og húsmóður.
Meistarapróf í næringar- og
heimilsfræðum skilyrði.

Virðingafyllst
hornös