mánudagur, mars 31, 2008

Já, ég hef ekki verið dugleg hérna undanfarið og helgast það aðallega af því að ég hef verið svo upptekin við að undirbúa
1. aprílsgrikkina mína!! :)

alltaf gaman að geta gabbað fólk almennilega og gert það "löglega" :) þetta er skemmtileg hefð, þið getið lesið allt um hana á Wikipedia og ég mæli sérstaklega með listanum yfir gömul göbb fjölmiðlanna:) ég sá aldrei fréttina um spagettí-uppskeruna á Ítalíu en ég sé hana fyrir mér og ég held að þetta gabb sé eitt hið besta í sögunni:)

... hundreds phoned in the following day to question the authenticity of the story, or ask for more information about spaghetti cultivation and how they could grow their own spaghetti trees. The BBC reportedly told them to "place a sprig of spaghetti in a tin of tomato sauce and hope for the best".

ég veit ekki með ykkur, hvort þið verðið fyrir barðinu á mótmælum dagsins eða ekki, en ég held með vörubílstjórunum og er mjög hlynnt og samþykk því að loksins, loksins gera Íslendingar eitthvað "á móti"!

Góðar stundir og andið með nefinu ef þið þurfið að bíða til að komast á milli staða í dag á bílunum ykkar - fólk sem vinnur við að keyra getur það ekki þegar olían er komin í tæpann tvöhundruð kall líterinn, það gengur ekki að borga með akstrinum ef þú ætlar að lifa á honum;)

föstudagur, mars 28, 2008

Svefnverður er orð er það ekki? :)

Góða nótt
Jæja, kominn föstudagur en mér finnst samt vera fimmtudagur því ég er á næturvaktinni ... aftur:) það er farið að birta en ég hlakka óskaplega til að komast heim í bólið, svaf nefnilega bara til hádegis í gær því ég varð að koma svo miklu í verk fyrir fjögur og náði svo bara að leggja mig í tæpan klukkutíma milli sex og sjö í gærkvöldi þannig að ég er nánast ósofin ... ég er mjög góð í að sofna á öðrum tímum en "hefðbundnum" svefntímum þannig að þessar vaktir fara ekkert illa í mig, ég get vakað á hvaða tíma sólarhringsins sem er ef ég fæ svefn á milli:)

við vorum að ræða þetta hér áðan, þegar aldurinn færist yfir breytist sumt fólk úr B fólki í A fólk en allir virðast vera sammála um að svefn er ekki lengur "obtional":) einu sinni gat ég verið vakandi á hvaða tíma sólarhringsins sem er og það skipti bara sæmilega miklu máli að fá einhvern svefn á milli:)

ef þið googlið hufsa er ein skilgreiningin:
1. hufsa; An overly paranoid, hobbit-like creature who easily becomes spellbound by the colour red; noun.

passiði ykkur á að sýna mér ekki neitt rautt krakkar mínir:)

Lifið heil

miðvikudagur, mars 26, 2008

Góðan og blessaðan:)

allir búnir að skila skattaskýrslunni sinni?? :)

ég er búin með mína:) vinkona mín kom í hábít til mín (hábítur er íslenska orðið yfir brunch víst ... veit ekki alveg hvað mér finnst um það ennþá:)) á mánudagsmorguninn og hún reddaði þessu fyrir okkur Gunnar - tók hana bara nokkrar mínútur enda sérfræðingur í svona efnum. Núna er hún ráðin for life því ég hef komist að því að sumt í lífinu er þess virði að borga fyrir, að þurfa ekki að hafa áhyggjur af skattaskýrslunni er eitt þeirra:)

Ég hef aldrei haldið því fram að ég væri sérlega sleip í skandinavísku en ég vona núna að ég sé verri en ég tel mig vera. Ég er að vona að ég hafi misskilið spurningarnar í þessari könnun hér að neðan.




logo
Hvem er du i Mummidalen?

Mitt resultat:
Hufsa
Du er Hufsa! Du er skummel og nesten alle er redd deg. Bakken fryser til is der du går, men egentlig vil du ikke skremme noen du vil bare ikke være alene.
Ta denne quizen på Start.no


Jækks!!! ég er einhvurt skrímli!!


Góðar stundir

sunnudagur, mars 23, 2008

Gleðilega páska (súkkulaði)rúsínurnar mínar:)




Góðar stundir

föstudagur, mars 21, 2008

Föstudagurinn langi - bjartur og fagur sýnist mér útum gluggann, er gluggaveður?

Vinsamlegast segið já því ég kemst ekki út til að tékka á því sjálf:)


Skringilegt nafn á bíómynd, The Long Good Friday, mér finnst frekar þunnt að skíra mynd þessu nafni þó hún gerist um páska:) ... en hún er víst fræg ... en þó að ég viti að hún hafi verið gerð, að menn hafi verið hengdir upp á hvolf í henni og ég þekki Harry Potter þá skil ég ekki þennan brandara? Merkilegt þegar brandarar eru bara ekkert fyndnir, einhverjum hlýtur að finnast þeir það góðir að það er þess virði að teikna þá, lita og setja á netið en ég bara næ þeim ekki alltaf:) skiljanlegt með skrítlur sem tengjast pólitík og atburðum í ákveðnum borgum og samfélögum, eins og Sigmundinn okkar sem þykir eflaust ekki fyndinn nema á Íslandi, en þegar er verið að vísa í bíómyndir/persónur/mat/tæki sem við þekkjum ættum við að minnsta kosti að brosa, er það ekki?

Annars dauðvorkenndi ég Zorró í fyrrakvöld. Hann var heima hjá mömmu og pabba allan tímann sem bróðir minn var úti og eftir hverja einustu máltíð þá tékkaði hann undir borðinu fullur óbilandi bjartsýni um að við hefðum misst eitthvað af diskunum okkar sem hann mætti eiga. Eigandi hans (jú, hún á hann) er nefnilega ekki alveg orðin þriggja og missir stundum niður þegar hún er að borða. Hann er góður vanur heiman frá sér en aldrei nokkurn tímann misstum við neitt niður - nema mamma missti einu sinni pínkulítið brokkólí á gólfið (honum fannst það ekkert gott en át það samt, það er allt hey í harðindum). Eftir kvöldmat á miðvikudaginn var ég að ganga frá eftir matinn hjá mömmu og pabbi. Það var ný tómatsósuflaska á borðinu og þegar ég tók hana upp gerðist kraftaverkið sem Zorró er alltaf að bíða eftir. Ég missti takið á flöskunni þannig að hún rann úr lófanum á mér og þegar ég greip fastar til að missa hana ekki slitnaði flipinn af tappanum, hún datt í gólfið og skoppaði tvisvar áður en hún lenti opin á hliðinni ... það sást ekkert á gólfinu nema nokkrir dropar við hliðina á flöskunni en um leið og ég beygði mig niður og kíkti undir borðið var umhorfs eins og miðlungslitlu dýri hefði verið slátrað án vottunar frá heilbrigðiseftirlitinu. Ég veit ekki hvort okkar hefði verið sáttara við þetta slys, ég yfir að þurfa ekki að þrífa og nudda og þrífa og skúra eða Zorró yfir að loksins, loksins hefði orðið kraftaverk:)

Ég kveð ykkur á Föstudaginn langa með mynd af hundi sem virðist hafa gefist upp fyrir gulu höndinni:)



Góðar stundir

miðvikudagur, mars 19, 2008

þriðjudagur, mars 18, 2008

Ég fattaði allt í einu áðan að gærdagurinn var ekkert sérstaklega góður þrátt fyrir að ég hafi haldið það í allan gærdag ... þessi fuglasöngur og bjarti himinn um morguninn villti um fyrir mér þannig að ég gerði mér ekki grein fyrir öllu sem gekk á, á meðan á því gekk:)

Dagurinn byrjaði sumsé ágætlega en vinnan var "fjölbreytt" fram að hádegi. Ég þreif klefa, vel og vandlega og í samræmi við það sem hafði gerst í þeim, ég þreif líka klósettin og smá slys sem hafði orðið á einu þeirra. Ég aðstoðaði mann við að setja á sig belti þó það hafi virst nokkuð vonlaust til að byrja með. Beltið náði nefnilega ekki allan hringinn en allt er hægt þegar viljinn er fyrir hendi og með samstilltu átaki tókst þetta hjá okkur ... og ég kýs að tjá mig ekkert frekar um það.

Það var allt tómt um hádegi þannig að ég þreif alla ganga vel og vandlega og sjálfa mig svolítið í leiðinni. Ég er ekkert sérlega fær í beitingu vatnsslangna þannig að ég endaði fremur vot upp að hnjám en allt glampandi hreint og fínt. Eftir hádegi slóraði ég svolítið. Lét það eftir mér að fara í kaffi með bróður mínum og mágkonu því mér fannst ég hafa verið dugleg við þrifin (mig minnir að ég hafi einhvern tímann varpað þessari spurningu fram hér: hvað gerir fangavörður þegar fangana vantar? núna eftir meiri reynslu í starfinu veit ég að fangaverðir þrífa þegar þá vantar og svo mega þeir fara í kaffi:)). Ég fór semsagt í kaffi og fór svo og hitti lögguhundinn Aron. Ég var að klappa Aroni með annarri hendinni og hélt á kaffibolla í hinni.

Aron gelti.

Ég var sem sagt þurr á bakinu þegar ég fór heim í gær en það stóð stutt. Ég fór á æfingu klukkan sex og það er stundum þema, yfirleitt hendur eða fætur. Í gær var takmarkið hins vegar sviti sýndist mér. Þegar kom að síðustu æfingunum var varla hægt að standa því gólfið var orðið rennandi sleipt af svitableytu. Sætt.

En ég fór snemma að sofa og vaknaði fersk í morgun algerlega ómeðvituð um að dagurinn í gær hafi verið nokkuð annað en góður. Þangað til ég fór að hugsa um hann. Það er greinilega ekkert gott að hugsa um liðna daga;)

Lifið heil og í núinu núna:)

mánudagur, mars 17, 2008

Ég fór í sund í gær eftir vinnu, borðaði svo klikkgóðan kvöldmat hjá Frekjunni minni og sofnaði nánast yfir vídeói. Gærdagurinn var góður dagur:) Daginn áður fór ég í strigaskó-leiðangur en endaði á því að kaupa peysur á frænkur mínar í staðinn, ég fór líka í kaffiboð til einnar vinkonu minnar með aðra vinkonu mína því sú fyrrnefnda vildi fá álit sérfræðings sem seinni vinkonan er - gaman að þessu:) ég passaði líka um kvöldið og á föstudaginn var ég vængkona sigurvegara! Jamms, Frekjan vann keppnina:) ... en ég get ekkert linkað því ég finn ekkert um úrslit keppninnar bara auglýsingar um hana, hér og hér:)

Jamms, klikkgóður er nýtt orð og meðan ég man, býgerð, Berglind mín, er danskt fílófax sem byggist á "busy little bee" hugmyndafræðinni. Verkefnum, stefnumótum og skiladögum er skipað í hólf sambærilegum þeim sem finnast í býflugnabúi, þetta bætir skipulag, eykur afköst, vellíðan, framleiðni og seratónínmagn heilans margfaldast. Fæst í Söstrene Grene.

Þegar ég fór út í morgun söng einn fugl nokkrar nótur og það var farið að birta þó klukkan væri ekki nema um hálfsjö. Vorið er að koma krakkar mínir og núna verður bíllinn þveginn hvort sem honum líkar betur eða verr. Það hefur reyndar staðið til aðeins of lengi og ég hef ekkert mér til málsbóta annað en að ég hef látið aðra hluti ganga fyrir. Mér þykir samt óskaplega vænt um Ara litla :)

Hérna er maður sem hefur sett allar Moggagreinarnar um strand Synetu á síðuna sína, alltaf gaman að svoleiðis framtakssemi:)

Góðar stundir

laugardagur, mars 15, 2008

Við lásum þetta ljóð í menntaskóla hjá Steinunni enskukennara ... hét hún ekki örugglega Steinunn? Ég man það ennþá (og við þurftum ekki einu sinni að læra það utanað) þannig að það hlýtur að teljast til uppáhaldsljóða er það ekki?

THE SECOND COMING


Turning and turning in the widening gyre
The falcon cannot hear the falconer;
Things fall apart; the centre cannot hold;
Mere anarchy is loosed upon the world,
The blood-dimmed tide is loosed, and everywhere
The ceremony of innocence is drowned;
The best lack all conviction, while the worst
Are full of passionate intensity.

Surely some revelation is at hand;
Surely the Second Coming is at hand.
The Second Coming! Hardly are those words out
When a vast image out of Spiritus Mundi
Troubles my sight: a waste of desert sand;
A shape with lion body and the head of a man,
A gaze blank and pitiless as the sun,
Is moving its slow thighs, while all about it
Wind shadows of the indignant desert birds.
The darkness drops again but now I know
That twenty centuries of stony sleep
Were vexed to nightmare by a rocking cradle,
And what rough beast, its hour come round at last,
Slouches towards Bethlehem to be born?


William Butler Yeats (1865-1939)

Góðar stundir

föstudagur, mars 14, 2008



Ég ætla að hætta að kaupa salat til að hafa í salöt - ég verð alltaf fyrir vonbrigðum og mér finnst það heldur ekkert gott. Það besta við salat er paprikan og gúrkan, ólífur, vínber og allt sem er ekki salat-salat, ég ætla héreftir að setja meira af salatmeðlætinu og sleppa salatinu sjálfu.

Þá er það ákveðið.

þriðjudagur, mars 11, 2008

Úúúúúúú 7of9 er lögga í einhverjum þáttum á Stöð 2, þeir heita Shark samkvæmt textavarpinu ... ég er í vinnunni þannig að ég missti af öllum þættinum, en ég geri ráð fyrir að þeir séu ágætir fyrst Geri Ryan og James Woods eru í aðalhlutverki:)



Á morgun fer ég að hlusta á sögur - oh hvað ég hlakka til:) það verður líka ljúft að vera í fríi þó dagurinn sé þéttskipaður af verkefnum og stefnumótum, þau verða að minnsta kosti öll á mínum vegum og eftir mínu höfði:)

Lifið heil

mánudagur, mars 10, 2008

Jújú, ég er alltaf að læra eitthvað nýtt - núna áðan var ég til dæmis að fá sendar skýringamyndir af táknmáli sérsveitarmanna. Ég er sko alveg í rétta starfinu til að fá svoleiðis upplýsingar og mig langar til að deila þessu táknmáli með ykkur - þó ég megi það ef til vill ekki vegna trúnaðar-hvað-sem-það-nú-heitir-loforðsins sem ég skrifaði undir. Það kemur í ljós:



... kannski fæ ég bara áminningu? ;)


Takk fyrir lestur og söng

sunnudagur, mars 09, 2008

Vitið þið eitthvað um Túrkmenistan? Stundum langar mig til að vera einræðisherra eins og Saparmurat Niyazov en ég held ég þurfi ögn meira egó til að komast upp með það ... vera sannfærandi ef þið skiljið mig? ég er til dæmis ekki með nægilega stórt egó til að láta alla lækna landsins sverja mér eið í staðinn fyrir að sverja Hippókratesareiðinn:)

In November 2005 physicians were ordered to swear an oath to the President, replacing the Hippocratic Oath.- sjáið allt sem hann lögfesti fyrir miðri síðu undir Presidential decrees.

svo er ég heldur ekki haldin nægilega miklum ranghugmyndum um umhverfið mitt til að segja hluti eins og:

I admit it, there are too many portraits, pictures and monuments. I don't find any pleasure in it, but the people demand it because of their mentality.

annars er ég farin að vera frekar hrifin af "ranghugmyndum um eigið umhverfi" þegar þær birtast hjá öðrum, aðallega vegna þess að útgáfurnar koma mér endalaust á óvart og staðfesta fyrir mér hin ægilega fjölbreytileika mannsandans:)



Lifið heil

föstudagur, mars 07, 2008

Föstudagskvöld í Borg óttans og ég er á kvöld-næturvakt - hér mun vera stuð:)

Vikan fór öll í vinnu, frídagarnir fóru í vinnu á öðrum stað vegna veikinda þar þannig að ný vaktatörn byrjaði í gær án frídags ... væri alveg í lagi ef ég hefði ekki ætlað mér annað með frítímann þessa vikuna en svo gabbaðist ég í þessa vitleysu alla. Ég kann alveg að segja nei, ég segi það bara aldrei á réttum tíma og yfirleitt ekki við rétta fólkið heldur;)

nei, nei, nei, nei, nei ... ertu viss? ha? nei ... og þá er ég búin að skjóta mig í fótinn:)

annars er margt skemmtilegt á döfinni á næstunni, ég verð að vinna alla þessa helgi en bróðir minn kemur heim í lok næstu viku, á föstudaginn mun ég vera vængkona og fer út að borða á laugardaginn, helgina eftir það eru páskarnir og þá mun vera spilað líka:) svo er sumarbústaðaferð og þannig líka í býgerð þannig að ég er spennt yfir komandi félagslífi - ég verð bara að vera duglegri í eiginlífinu til að geta notið alls þessa held ég barasta, gengur ekki að vera með samviskubit allan liðlangan daginn er það nokkuð?;)

Góðar stundir

mánudagur, mars 03, 2008

Ég hef áhyggjur þessa dagana af húmornum mínum, hann er að breytast.

Ég hef líka áhyggjur af því að skoðanir mínar séu að breytast ... að sumu leyti.

Sumt er ekki að breytast samt, ég er enn hrifin af skemmtilegum sjónvarpsþáttum. Núna var einn nýr að bætast í hóp útvalins efnis sem höfðar til míns fínstillta og fágaða smekks ... við verðum öll að hafa álit á okkur sjálfum því ef við höfum það ekki, hver hefur það þá?

Eruð þið að fylgjast með Life?




Góðar stundir