miðvikudagur, júlí 29, 2009

Ég er í vinnunni og það var gaur að bíða á ljósunum Snorrabraut-Hverfisgata með Modern Talking í botni ... án gríns :) hendin útum gluggann, sló taktinn og allur pakkinn!

minnir mig á tryggingaauglýsinguna sem ég fæ ekki leið á :)



Góðar stundir

sunnudagur, júlí 26, 2009

Ég fór í afmæli til Öddu í kvöld, rosalega flott afmæli og alger synd að þurfa að yfirgefa það til að fara í vinnuna :/ fullt ísker af drykkjum, stórglæsilegar veitingar og skemmtilegt fólk - enda ekki við öðru að búast en skemmtilegu partýi miðað við hvað boðskortið var flott ;)


Ég var að heyra alveg frábæran brandara. Glæpabrandara, enda lögga sem sagði mér hann - löggur segja auðvitað bara brandara um glæpi :)


Það var skjaldbaka sem fór í frí til New York og lenti í árás.
Sniglagengi réðst á hana og rændi hana öllum verðmætum.

Löggan kom á staðinn, tók skýrslu af sjokkaðri skjaldbökunni og spurði hvort hún gæti lýst lýst árásaraðilunum?

Skjaldbakan hugsaði lengi, lengi áður en hún svaraði.

Loks sagði hún:

"Vitiði strákar, ég veit ekki hvernig þeir litu út. Þetta gerðist allt svo hratt"



Ójá, ég hló svo það komu tár ;)


Lifið heil

fimmtudagur, júlí 23, 2009

Geri ekki ráð fyrir að nokkur lesi þetta blogg lengur en ætla samt að spyrja, ætlar einhver á Jethro Tull í september?

Ég missti af fyrstu miðasölunni en var að sjá að það verða aukatónleikar 12. september þannig að það er séns að komast ... veit samt ekki hvort ég þekki nokkurn sem fílar hljómsveitina nóg til að fara nema þeir sem fíla hana svo mikið að þeir hafi pottþétt keypt miða á fyrri tónleikana ;)

tékka á þessu ... :)

Annars er "remba" afskaplega sérkennilegt fyrirbæri og hrjáir marga sem gera sér ekki grein fyrir því. En það er eflaust ein lýsing rembu, þú gerir þér ekki grein fyrir að þú sért haldin henni frekar en þú gerir þér grein fyrir fordómum þínum ... nema þessum meðvituðu auðvitað. Þú hefur ákveðna lífssýn og skoðun á hlutunum og það er enginn að fara að segja þér að hún sé röng. Ef þú ert sannfærður um eitthvað er það bara þannig, Volkswagen eru lélegir bílar, Benz eru góðir bílar, konur eru hálfvitar ... þið vitið hvað ég er að fara.

Einu sinni var mér sagt að ég væri svo hrokafull að það væri erfitt ef ekki ómögulegt að tala við mig. Mér þótti það merkilegt því ég hafði ekki gert mér grein fyrir því sjálf. Eflaust er ég hrokafull en ég vissi ekki að það væri erfitt að tala við mig af þeim sökum. Alltaf gott að læra eitthvað nýtt, sérstaklega um sjálfan sig. Þá er hægt að vera meðvitaðari um persónuleikabresti sína og gera eitthvað í þeim.

Ég hef gert það sem ég get til að hætta að vera hrokafull eftir að mér var sagt að ég væri það. Ég vona að það hafi tekist en ég get ekki verið alveg viss því ég tala ekki við sjálfa mig þannig. Viðskiptavinir mínir hins vegar taka ábendingum um mismunandi lífsspeki ólíkra einstaklinga afskaplega illa. Í vinnunni minni kynnist ég fjölmörgum rembum af öllum stærðum og gerðum sem eru sannfærðir um allt milli himins og jarðar - meðal annars vegna misgóðrar þjónustu geðheilbrigðiskerfisins geta þessar sannfæringar verið alls konar og afskaplega skrautlegar. En karlremba er afskaplega algeng og margir eiga erfitt með að sætta sig við að þeim sé "haldið föngnum" af konu ... og ekki "in a good way".

Það er svipað áhrifamikið að sparka í froðu í þeim tilgangi að skora mark með henni og að pirra sig á rembum viðskiptavinanna þannig að ég hef lært að anda með nefinu (þegar lyktin leyfir) og sætta mig við fjölbreytileika mannlífsins. Afhverju er ég þá að skrifa þetta? Þrátt fyrir að vera nokkuð sjóuð í mannlegum samskiptum, svona miðað við upplag, aldur og fyrri störf, þá er ég sífellt að átta mig á fleiri flötum mannlífsins. Karlremba kvenmanna er sérlega áhugaverður flötur sem ég hef ekki spáð nægilega mikið í. Konur geta verið rosalegar karlrembur. En hvað kallast konur sem eru karlrembur? Þær koma eins fram við konur og karlkyns karlrembur en eru samt konur ... er til orð yfir þær?

Bara pæling.

Lifið heil og heilsteypt

miðvikudagur, júlí 22, 2009

Langt síðan síðast :)

Ég kenni Facebook um, ekki því að ég hafi verið löt að skrifa undanfarið, auðvitað ekki. Mun auðveldara og skynsamara að skella skuldinni á eitthvað annað, sérstaklega þegar þetta "annað" getur ekki svarað fyrir sig og það vita allir að Facebook er tímaþjófur - hefur ekkert með mína leti að gera ... neibbs :)

svo er líka sumar, ég hugsa að ég hafi aldrei verið sérlega dugleg að blogga á sumrin þó ég hafi ekki athugað það til að styðja mál mitt - þetta er bara önnur afsökun. Þær eru fleiri auðvitað en ég hugsa að ég láti staðar numið núna og segi eitthvað af viti. Eins langt og það nær að minnsta kosti :)

Talandi um Facebook þá virðast sú tíska vera ríkjandi að fólk auglýsi frammistöðu sína í statusnum sínum. Ekkert að því auðvitað því fólk er beðið um að skrifa "það sem það er að gera núna", en það er ekki laust við að ég finni stundum fyrir minnimáttarkennd þegar það virðist sem annar hvor notandi sé uppá Esjunni í hverri viku, hlaupi fleiri fleiri kílómetra daglega og þrífi íverustaði sína oftar en sjúkrahúsin þrífa gangana ... ég kýs fremur að miðla af visku minni í formi ráðlegginga um áhyggjulausara líf en að auglýsa frammistöðu mína. Þrátt fyrir að skara frammúr á hinum ýmsu sviðum auðvitað ;)

Það hafa allir af einhverju að státa og frammistaða fólks í íþróttum og útivist er mun skárri en önnur frammistaða þeirra líkamlega. Við getum öll verið fegin að A-týpurnar sem hlaupa á fjöllin og ryksuga með gusto auglýsi þá frammistöðu frekar en til dæmis bólfimi, klósettferðir - stærð afraksturins, lögun og lykt - tilfinningar (andlega og líkamlega) eða hnyttni af þeirri gerð sem aðeins skilst ef þú varst sjálfur á staðnum. "Það sem þú ert að gera núna" er nefnilega afskaplega loðið og teygjanlegt og fólk skilur það á mismunandi hátt ...

en til að auglýsa eigin frammistöðu þá hef ég raunar gert ýmislegt undanfarið ... fór til dæmis á Esjuna síðasta fimmtudag, í bústað síðustu helgi og sá brúðuleikhús á Hólmavík - mæli hiklaust með því, hló upphátt og það komu meira að segja tár ;) - og gekk upp að Glym í fyrsta sinn í dag í frábæru veðri en greinilega ekki hættulausu. Við vorum líka að segja það þegar við vorum að klöngrast í klettunum efst í Esjunni að það væri eiginlega merkilegt að fleiri slösuðust ekki þarna uppi miðað við umferðina og viti menn Esjan er alls ekki hættulaus, daginn eftir varð óhapp og líka í dag :/

farið varlega en djarflega og njótið sumarsins ;)