miðvikudagur, maí 26, 2010

Fjórar vaktir eftir svo sumarfrí. Ég tel þessa vakt sem ég er að vinna ekki með því ég er meira en hálfnuð með hana. Ég ætla ekki að vinna annars staðar í þessu sumarfríi og ég fer til útlanda og ætla í útilegur, þetta verður bara snilld :)

Lillibó skipti um olíusíu og olíu á hjólinu mínu í gær ... ég vildi að ég gæti sagt að ég hafi gert eitthvað sjálf en ég aðallega fylgdist bara með og hélt uppi samræðum. Ok, ég talaði og hann hlustaði, held ég ;) kannski hlustaði hann ekki neitt en ég talaði heilan helling og fylgdist með auðvitað þannig að ég geti gert eitthvað af þessu sjálf á næsta ári ... eða vitað betur hvað hann er að gera þegar hann gerir þetta á næsta ári, aftur :)

Annars er ekki sérlega gott að vera bara notandi á öllum sviðum. Ég nota rafmagn en hef ekki hundsvit á því hvernig það virkar, sama með pípulagnir, ég vil bara að vatnið komi og fari eins og mér hentar og fari þangað sem það á að fara. Hugsa að flestir séu þannig að vísu, við göngum bara að rafmagni og vatni sem gefnu í okkar samfélagi. Ég keyri bílinn minn og mótorhjólið og veit nokkurn vegin hvað er í gangi en samt ekki ... ekki ef ég ætti að útskýra það í einhverjum smáatriðum eða gera við eitthvað sem er ekki nánast algerlega idjótprúff (kælivatn, olía, rúðupiss til dæmis).

Tölvan ... dæs.

Ég þarf kannski að kaupa mér nýja svoleiðis því mín er alltaf að "blue screena" - physical memory dump eitthvað etc. Mér finnst ekkert gaman að vera tölvulaus en mér finnst tölvuvesen enn leiðinlegra. Tölvuvesen er í mínum huga eins og tannvesen og skattaskýrslan. Sem betur fer gerir skásystir mín alltaf skattaskýrsluna mína þannig að ég get sleppt því að hugsa um hana, takk Sara ;) og tannlæknirinn minn er frændi minn og sérfræðingur í barnatannlækningum, hann er svo ljúfur að pabbi sofnaði einu sinni í rótarfyllingu hjá honum - það versta við að fara til hans er að hlusta á það sem er að gerast ;) en tölvur ... dæs.

Og það sem ég kann ekki eða vil ekki lendir alltaf neðst á to-do listanum hjá mér, ég verð að fara að gera eitthvað í þessu. Vildi samt óska að það væri hægt að kaupa tölvur sem bara virkuðu, endalaust. Það væri hægt að fara á netið, sama hvað þú ert mikill illi þá er netið bara í tölvunni og þú þarf bara að ýta á OK eða Yes og tölvan er tengd. Það væri hægt að vera í ritvinnslu og skrifa skjöl sem hægt væri að senda og skoða í öðrum tölvum, hægt að horfa á DVD myndir og skoða ljósmyndir án þess að sækja sér kaffibolla í hvert sinn sem tölvan opnar nýja mynd ... vinnsluhraði? innra minni? hvað sem það heitir, bara að það virki :)

Afhverju er ekki bara búin til tölva sem getur orðið "klassísk", með öllu sem venjulegur notandi þarf á að halda, ekkert fansí, ekkert brothætt eða flókin, ekki uppfærð eða tjúnuð eða með aukahlutum sem 95% notenda notar hvort sem er ekki neitt. Eins og Ural mótorhjólin, þau eru klassísk, þau virka, komast frá A til B og það er hægt að gera við þau með kúbeini, WD40 og teipi.

Mig langar í Ural tölvu.

Góðar stundir

föstudagur, maí 07, 2010

Ég fór í leikhús í gærkvöldi og það var alger snilld, ég hló eiginlega allan tímann og ég get ekki annað en mælt með sýningunni. Ef þið komið því við ættuð þið endilega að kíkja á Gerplu í Þjóðleikhúsinu :)



Sýningin var ekki bara fyndin heldur líka rosalega "gáfuleg" ... búningarnir voru einfaldir en voru um leið fjölbreyttir, allir eins í grunninn þannig að allir gátu verið allt bara með því að setja á sig belti eða vesti eða grímu eða sjal. Búningarnir voru sumsé aukahlutirnir ekki alklæðnaður. Sviðsmyndin var einföld en notuð í allt ... strönd Noregs, ó hvað ég hló :) Já, ef þið komist, farið að sjá Gerplu :)

Næst er það Íslandsklukkan á laugardaginn - Halldór Laxness vika hjá okkur :D

og svo auðvitað Amadou og Mariam næsta miðvikudag, sem minnir mig á það að ég er með einn auka miða á tónleikana ef einhver vill kaupa hann af mér? Ég er handviss um að tónleikarnir verði alveg frábærir og eftir 10 ár verður kominn hópur á Facebook "Ég sá Amadou og Mariam á Listahátíð 2010" ;) ef þið hafið áhuga á að kíkja til Afríku eina kvöldstund verið endilega í bandi!

Góðar stundir

miðvikudagur, maí 05, 2010

Jæja, þá er komið að mánaðarlegu færslunni minni ... nah, ég blogga ekki svo sjaldan? næstum jú, en ekki alveg ;)

Mótorhjólið er komið á götuna og ég er afskaplega ánægð með það, fór í ferð með vinkonu minni í gærmorgun í glampandi sólskini og bongóblíðu. Krýsuvíkurleiðina framhjá Kleifarvatni, Suðurstrandarveginn að Strandakirkju (þar sem við sáum seli!!), á leiðinni til Þorlákshafnar var frábært útsýni yfir á eldgosið. Útsýnið þaðan var líklega betra en nær gosinu því við sáum það rísa uppúr skýjabakka ... ótrúlega flott ;)

Svo var auðvitað komið við í Litlu kaffistofunni á leiðinni heim eftir einn hring um Þorlákshöfn (rosalega eru margar lyktir í þeim bæ!) ;)

Eftir þrjár vikur fer ég í sumarfrí og ég er ekki að fara að vinna annars staðar. Ég verð í fríi í heilan mánuð, verð úti í tvær vikur af þeim tíma og tvær vikur að dóla mér innanlands ... þegar ég kem heim á ég einmitt viku eftir af fríinu og ég er að hugsa um að leggjast út, bókstaflega :)

Sjáum til og kannski set ég inn myndir á eftir af ferðinni í gær, ef þær heppnuðust ...


Lifið heil