þriðjudagur, desember 29, 2009

Gleðilega hátíð allir saman :)


Það er ekki mikil virkni á þessari bloggsíðu, alls ekki - en ég neita að láta hana eftir því þrátt fyrir vanræksluna þá þykir mér afskaplega væntum allar færslurnar sem eru hérna ... ja, misvænt auðvitað eins og gengur og gerist. Ég er afskaplega mistækur bloggari en sumar eru fínar - minnir mig? :)

Ég er of mikið á Facebook býst ég við. Yfirleitt er ég samt bara á Facebook þá daga sem ég er að vinna, óboj, ætti kannski ekki að vera að játa þetta því fólk hefur komst í vandræði vegna Facebooknotkunar í vinnunni ... en það er svosem ekki neitt leyndarmál heldur. Eigum við ekki bara að segja að ég læt Facebook ekki bitna á vinnunni heldur hjálpar hún við að halda kompássnum réttum, þjónustuþegarnir eru afskaplega misjafnir og það er fínt að núllstilla sig með því að taka upp uppskeru í FarmVille eða gefa fiskunum í FishVille ... sem mér tekst að vísu yfirleitt að drepa ;) en þetta Facebook hættir kannski að vera spennandi bráðum og þá vil ég ekki hafa hætt að blogga - hvernig getur fólk þá fylgst með mér? ;)

sjáum hvort ég verði duglegri að blogga á nýju ári? ætla ekki að setja nein áramótaheit en ég veit að það er sumt sem mig langar til að breyta þannig að kannski læt ég verða af því á nýju ári ... það verður að vera á nýju ári úr þessu, það eru bara tveir dagar eftir af þessu :)


Lifið heil og ef þið kaupið flugelda styrkið björguanrsveitirnar og ef þið kaupið flugelda af björgunarsveitunum notið þá hlífðargleraugu og farið varlega þegar þið eruð að sprengja :)

´


Gáfur eru ekki alltaf það sama og gáfur - góðar stundir!

mánudagur, október 12, 2009

Þá er kominn október. Kannski er ein færsla í mánuði það sem koma skal, það er þó væntanlega betra en engin og bloggið lifir :)

Haustið virðist oft vera tími breytinga hjá mér og í ár er ég að breyta eldhúsinu ... setti upp hillur í elhúsinu með aðstoð góðs fólks og úr því að þær voru komnar upp varð ég að setja eitthvað á þær og eins og allir vita þá er algerlega nauðsynlegt að endurraða öllum eldhússkápunum, skúffunum og hillunum þegar eitthvað eitt breytist ;)

mér hefur tekist listivel að nota alla frídagana mína undanfarið í eitthvað annað en að ákveða hvernig ég vilji hafa eldhúsið þannig að þetta miðast illa áfram :) ég fer að klára, bráðum, enda fer að koma tími á piparkökur og smákökur ... ég stefni auðvitað á jólabakstur í ár sem endranær hvort af verði veit ég samt ekki ;)

það sem er helst í fréttum er þó auðvitað að ég sé fullkomlega :)

ég fór í leyseraðgerð fyrir að verða þrem vikum og hún heppnaðist "betur en hægt er að vona" að sögn læknisins og ég sé bókstaflega ALLT :) ég sé bílnúmer á bílum sem ég mæti, ég get lesið skilti í fjarlægð og lesið fyrir svefninn án þess að þurfa að leita að gleraugunum í rúminu morguninn eftir því ég sofnaði með þau (og finna þau krambúleruð upp við vegginn - titaníumumgjarðir margborguðu sig) svo er ég alltaf reglulega að muna að ég þarf ekki að setja í mig linsurnar eða taka þær úr mér og alltaf fæ ég risavaxið sólheimaglott á andlitið - það er helsta aukaverkunin, harðsperrur í kinnarnar ;)

lifið heil og sjáumst bráðum :)

laugardagur, september 12, 2009

Sá Jethro Tull í gær :)

Ójá :)

Fór heim og hlustaði á meira Jethro Tull eins og fólk gerir. Ég keypti bolinn á tónleikunum. Ég geri það alltaf, ég er í þessum 10% sem þeir prenta boli fyrir. Svarta, stærð L. En ég fór ekki í hann til að hlusta á Jethro Tull þegar ég kom heim. Þurfti þess ekki til að muna eftir tónleikunum enda nýkomin heim.

Ég leitaði líka að myndbrotum á youtube með gítarleikaranum Florian Ophale, ég er barasta hálfskotin í honum eftir gærkvöldið. Ótrúlega flottur gítarleikari, eins og Sleipnir en bara með átta fingur, rosalega hraðskreiðir puttar. Nokkuð viss um að Florian hafi samt bara verið með fimm putta, bara búinn að æfa sig mikið.

Annars hef ég komist að því að ég er hálfgerð grúppía svona inní mér. Alveg merkilegt hvað ég kætist öll og gleðst þegar ég sé einstakling sem mér finnst flottur, skemmtilegur, frumlegur, fallegur, gáfaður, hæfileikaríkur ... bæði karlmenn og konur, einstaklingur er bara karlkynsorð.

Sá einmitt David Sedaris á miðvikudaginn síðasta og það gladdi mig afskaplega mikið. Bara að sjá hann. Og meira þegar hann byrjaði að lesa ritgerðina sína. En eins og ég hef komið inná áður hérna á blogginu þá myndi ég ekki fyrir mitt litla vilja hitta eitthvað af þessu fólki í eigin persónu. Ég myndi roðna, stama eitthvað óskiljanlegt eða segja eitthvað afskaplega kjánalegt hátt og skýrt þannig að ég gæti ekki einu sinni logið mig útúr því, kannski slefa smá eða skyrpa, tala of lengi eða tala of lítið, afsaka mig eins og bjáni og flýja af hólmi ... ójá, ég vil alls ekki hitta fólk eins og aðrar grúppíur. Auk þess er ég ekki í hóp, það er bara ég sem kætist, inní mér, ekki útum allt og upphátt, yfirleitt, þannig að það er kannski eitthvað annað orð yfir fólk eins og mig? Aðdáandi sem vill alls ekki hitta hið dáða ...

Ég hitti einu sinni Horst Tapper, manninn sem lék Derrick, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, við anddyrið á gömlu fríhafnarbúðinni sem var sirka þar sem gleraugnabúðin er núna, ranamegin við innganginn ekki rúllustigamegin. Þá var flugstöðin teppalögð og ekki eins björt í minningunni og hún er núna en ég man afskaplega skýrt hvað Horst var ljós, í ljósum fötum með ljósa húð og ljóst hár og með rosalega útstæð augu. Ekki bara smá útstæð heldur eins glær fiskaaugu ... hafði aldrei séð svoleiðis þá og ekki viss um að ég hafi séð svoleiðis síðan?

Systir mín var að læra þýsku á þessum tíma og var búin að kenna mér að segja "ég heiti" og að ég væri ellefu ára gömul og ætti tvær systur og einn bróður. Lillabó var svo ýtt fram sem sönnun fyrir tilvist bróðursins og fékk að taka í höndina á Derrik líka. Systurnar voru ekki með okkur en ég held að Derrick hafi séð að ég var ekki að ljúga. Hann sagði eitthvað við mig á þýsku en ég var búin að segja allt sem ég kunni, tvisvar, þannig að þegar hann var búinn að klappa mér á kollinn og hlæja góðlátlega fór ég aftur til mömmu.

Kannski þolir fólk betur að gera sig að fífli þegar þau eru krakkar? eða hugsar ekki um það?



Blessuð sé minning hans, þið hin: lifið heil

miðvikudagur, júlí 29, 2009

Ég er í vinnunni og það var gaur að bíða á ljósunum Snorrabraut-Hverfisgata með Modern Talking í botni ... án gríns :) hendin útum gluggann, sló taktinn og allur pakkinn!

minnir mig á tryggingaauglýsinguna sem ég fæ ekki leið á :)



Góðar stundir

sunnudagur, júlí 26, 2009

Ég fór í afmæli til Öddu í kvöld, rosalega flott afmæli og alger synd að þurfa að yfirgefa það til að fara í vinnuna :/ fullt ísker af drykkjum, stórglæsilegar veitingar og skemmtilegt fólk - enda ekki við öðru að búast en skemmtilegu partýi miðað við hvað boðskortið var flott ;)


Ég var að heyra alveg frábæran brandara. Glæpabrandara, enda lögga sem sagði mér hann - löggur segja auðvitað bara brandara um glæpi :)


Það var skjaldbaka sem fór í frí til New York og lenti í árás.
Sniglagengi réðst á hana og rændi hana öllum verðmætum.

Löggan kom á staðinn, tók skýrslu af sjokkaðri skjaldbökunni og spurði hvort hún gæti lýst lýst árásaraðilunum?

Skjaldbakan hugsaði lengi, lengi áður en hún svaraði.

Loks sagði hún:

"Vitiði strákar, ég veit ekki hvernig þeir litu út. Þetta gerðist allt svo hratt"



Ójá, ég hló svo það komu tár ;)


Lifið heil

fimmtudagur, júlí 23, 2009

Geri ekki ráð fyrir að nokkur lesi þetta blogg lengur en ætla samt að spyrja, ætlar einhver á Jethro Tull í september?

Ég missti af fyrstu miðasölunni en var að sjá að það verða aukatónleikar 12. september þannig að það er séns að komast ... veit samt ekki hvort ég þekki nokkurn sem fílar hljómsveitina nóg til að fara nema þeir sem fíla hana svo mikið að þeir hafi pottþétt keypt miða á fyrri tónleikana ;)

tékka á þessu ... :)

Annars er "remba" afskaplega sérkennilegt fyrirbæri og hrjáir marga sem gera sér ekki grein fyrir því. En það er eflaust ein lýsing rembu, þú gerir þér ekki grein fyrir að þú sért haldin henni frekar en þú gerir þér grein fyrir fordómum þínum ... nema þessum meðvituðu auðvitað. Þú hefur ákveðna lífssýn og skoðun á hlutunum og það er enginn að fara að segja þér að hún sé röng. Ef þú ert sannfærður um eitthvað er það bara þannig, Volkswagen eru lélegir bílar, Benz eru góðir bílar, konur eru hálfvitar ... þið vitið hvað ég er að fara.

Einu sinni var mér sagt að ég væri svo hrokafull að það væri erfitt ef ekki ómögulegt að tala við mig. Mér þótti það merkilegt því ég hafði ekki gert mér grein fyrir því sjálf. Eflaust er ég hrokafull en ég vissi ekki að það væri erfitt að tala við mig af þeim sökum. Alltaf gott að læra eitthvað nýtt, sérstaklega um sjálfan sig. Þá er hægt að vera meðvitaðari um persónuleikabresti sína og gera eitthvað í þeim.

Ég hef gert það sem ég get til að hætta að vera hrokafull eftir að mér var sagt að ég væri það. Ég vona að það hafi tekist en ég get ekki verið alveg viss því ég tala ekki við sjálfa mig þannig. Viðskiptavinir mínir hins vegar taka ábendingum um mismunandi lífsspeki ólíkra einstaklinga afskaplega illa. Í vinnunni minni kynnist ég fjölmörgum rembum af öllum stærðum og gerðum sem eru sannfærðir um allt milli himins og jarðar - meðal annars vegna misgóðrar þjónustu geðheilbrigðiskerfisins geta þessar sannfæringar verið alls konar og afskaplega skrautlegar. En karlremba er afskaplega algeng og margir eiga erfitt með að sætta sig við að þeim sé "haldið föngnum" af konu ... og ekki "in a good way".

Það er svipað áhrifamikið að sparka í froðu í þeim tilgangi að skora mark með henni og að pirra sig á rembum viðskiptavinanna þannig að ég hef lært að anda með nefinu (þegar lyktin leyfir) og sætta mig við fjölbreytileika mannlífsins. Afhverju er ég þá að skrifa þetta? Þrátt fyrir að vera nokkuð sjóuð í mannlegum samskiptum, svona miðað við upplag, aldur og fyrri störf, þá er ég sífellt að átta mig á fleiri flötum mannlífsins. Karlremba kvenmanna er sérlega áhugaverður flötur sem ég hef ekki spáð nægilega mikið í. Konur geta verið rosalegar karlrembur. En hvað kallast konur sem eru karlrembur? Þær koma eins fram við konur og karlkyns karlrembur en eru samt konur ... er til orð yfir þær?

Bara pæling.

Lifið heil og heilsteypt

miðvikudagur, júlí 22, 2009

Langt síðan síðast :)

Ég kenni Facebook um, ekki því að ég hafi verið löt að skrifa undanfarið, auðvitað ekki. Mun auðveldara og skynsamara að skella skuldinni á eitthvað annað, sérstaklega þegar þetta "annað" getur ekki svarað fyrir sig og það vita allir að Facebook er tímaþjófur - hefur ekkert með mína leti að gera ... neibbs :)

svo er líka sumar, ég hugsa að ég hafi aldrei verið sérlega dugleg að blogga á sumrin þó ég hafi ekki athugað það til að styðja mál mitt - þetta er bara önnur afsökun. Þær eru fleiri auðvitað en ég hugsa að ég láti staðar numið núna og segi eitthvað af viti. Eins langt og það nær að minnsta kosti :)

Talandi um Facebook þá virðast sú tíska vera ríkjandi að fólk auglýsi frammistöðu sína í statusnum sínum. Ekkert að því auðvitað því fólk er beðið um að skrifa "það sem það er að gera núna", en það er ekki laust við að ég finni stundum fyrir minnimáttarkennd þegar það virðist sem annar hvor notandi sé uppá Esjunni í hverri viku, hlaupi fleiri fleiri kílómetra daglega og þrífi íverustaði sína oftar en sjúkrahúsin þrífa gangana ... ég kýs fremur að miðla af visku minni í formi ráðlegginga um áhyggjulausara líf en að auglýsa frammistöðu mína. Þrátt fyrir að skara frammúr á hinum ýmsu sviðum auðvitað ;)

Það hafa allir af einhverju að státa og frammistaða fólks í íþróttum og útivist er mun skárri en önnur frammistaða þeirra líkamlega. Við getum öll verið fegin að A-týpurnar sem hlaupa á fjöllin og ryksuga með gusto auglýsi þá frammistöðu frekar en til dæmis bólfimi, klósettferðir - stærð afraksturins, lögun og lykt - tilfinningar (andlega og líkamlega) eða hnyttni af þeirri gerð sem aðeins skilst ef þú varst sjálfur á staðnum. "Það sem þú ert að gera núna" er nefnilega afskaplega loðið og teygjanlegt og fólk skilur það á mismunandi hátt ...

en til að auglýsa eigin frammistöðu þá hef ég raunar gert ýmislegt undanfarið ... fór til dæmis á Esjuna síðasta fimmtudag, í bústað síðustu helgi og sá brúðuleikhús á Hólmavík - mæli hiklaust með því, hló upphátt og það komu meira að segja tár ;) - og gekk upp að Glym í fyrsta sinn í dag í frábæru veðri en greinilega ekki hættulausu. Við vorum líka að segja það þegar við vorum að klöngrast í klettunum efst í Esjunni að það væri eiginlega merkilegt að fleiri slösuðust ekki þarna uppi miðað við umferðina og viti menn Esjan er alls ekki hættulaus, daginn eftir varð óhapp og líka í dag :/

farið varlega en djarflega og njótið sumarsins ;)

föstudagur, maí 01, 2009

Æ ég veit að ég er ekki sérlega dugleg að blogga en þessari mynd varð ég að deila með ykkur :)




Gleðilegt sumar og lifið heil

fimmtudagur, apríl 02, 2009

Lillibó var hérna í gær, 350 metra löng kaðal og vírbrú sem liggur yfir regnskóginum í allt að 30 metra hæð ... hann er í fríi í Ghana en býr í Líberíu í augnablikinu, svona fyrir þau ykkar sem ekki vitið það :)

annars er svo langt síðan að ég bloggaði að ég er eiginlega búin að gleyma hvernig það er gert ;)

ég er búin að vera að þjálfa hundinn undanfarið í að gera það sem ég segi honum þegar ég segi honum það ekki þegar hann er búinn að elta köttinn eða hentar honum ... ekki að ég hafi áhyggjur af kettinum. Eymingjans hundurinn er ekki mikið rándýr þó hann sé úlfur aftur í ættir - hann hefur verið að elta rjúpur uppí Heiðmörk í rúm þrjú ár og hann hefur aldrei komist nær en sirka 50 metra og rjúpur eru ekki beint þekktar fyrir viðbragðsflýti og fagran limaburð kattanna sem Zorró telur sig í alvöru eiga séns í ;)

ég er líka farin að plana sumarið - fyrsta planið er bústaður helgina eftir páska :) svo eru það Vestfirðirnir aftur og Suðurlandið - kannski alla leið á Kongó og kannski allan hringinn ... fer eftir því hvað ég fæ langt frí í sumar? annars er ég í fríi helgina sem Bræðslan er ... mig langar til að fara, jafnvel þó að Egill Ólafsson verði þar í sumar, ég kann ekki alveg að meta þann mann - það er bara mitt mat, ég kann heldur ekki að meta Björk og Hörð Torfa, þau eru bara ekki mér að skapi ;)

gabbaði engan í gær en trúði heldur engum, jafnvel þegar verið var að segja mér satt sem var kannski alveg eins sniðugt en leiðréttist allt að lokum ;)

eruð þið byrjuð að plana sumarið ykkar?

Góðar stundir

miðvikudagur, mars 18, 2009

Mætt á aukavakt, var í fríi í gær og náði upp smá svefni með því að sofa næstum til hádegis :) afskaplega ljúfur dagur, svaf lengi, fór út með hundinn, fór í kaffi, skrifaði bréf og fór svo með hundinn í hundaleikskólann þar sem hann var eins og engill í sjéfferbúningi - annað en í síðustu viku þegar hann bara nennti þessu alls ekki og vildi miklu frekar leika við hina hundana en að spá eitthvað í að læra að leita ;)

Síðasta törn var biluð, hvað er fólk að vesenast þessa vitleysu um miðjan mars? svo fór ég líka seint að sofa nánast á hverju kvöldi þannig að ég var líka þreytt á hverjum einasta morgni ... en það var alltaf þess virði :) fór til dæmis á gagnfræðaskóla reunion og hitti fullt af fólki sem ég hef ekki hitt lengi, lengi og næst ætla ég að ákveða mun fyrr að ég ætli að fara og jafnvel redda mér fríi daginn eftir svo ég þurfi ekki að fara heim jafnsnemma ;)

... og nei, þetta er ekki ellimerki að fara heim að sofa í staðinn fyrir að mæta ósofin daginn eftir í vinnuna, það er af mannúðarástæðum sem ég mæti ekki ósofin í þessa vinnu ;)

Lifið heil

miðvikudagur, mars 11, 2009

Þá er mánudagur hjá mér :) ekki alvöru mánudagur heldur var ný vaktatörn að byrja, morgunvaktir næstu sex daga og í dag er ég þreytt ... afskaplega sybbin og búin að lofa mér að fara að sofa klukkan níu í kvöld til að vera ögn ferskari í fyrramálið ;)

... hvort það gengur eftir kemur í ljós en stefnan er huggun í bili :)


Svo eru brandarar líka góð hugmynd við syfju:

Siggi, pabbi vinar míns, sá sumarbústað auglýstan til sölu og sá sem veitti upplýsingar í síma sagði að þetta væri ágætis bústaður. Málið vandaðist hins vegar þegar Siggi spurði hvort það væri verönd við bústaðinn.
-Verönd, hvað er það?
Það er svona pallur þar sem maður getur setið úti og borðað.
-Nei, það er ekkert svoleiðis.
En salernisaðstaða?
-Það er fínasti kamar rétt hjá.
En ekkert klósett inni?
-Nei.
Þá heyrðist húsfreyjan spyrja í bakgrunni hver væri í símanum.
-Æ, þetta er einhver kall að sunnan sem vill éta úti en kúka inni.


Góðar stundir

mánudagur, mars 09, 2009

Eitt af því besta við að eiga hund er að þú fattar að veðrið er aldrei eins slæmt þegar þú ert lögð af stað og það virðist vera áður en þú ferð út :) þegar þú VERÐUR ekki að fara út að ganga í klukkutíma sama hvernig viðrar gefurðu veðri alltof lítinn séns, finnst mér - eða kannski er það bara ég? kuldaskræfan og innipúkinn? :)

annars er ég eiginlega hætt að vera kuldaskræfa og innipúki ... og eftir síðasta sumar þá er mér nokk sama um rigningu líka, þó mér finnist hún ekki beint góð, alltaf, þá er ekkert að henni ;) samt var frekar mikið rok áðan, mér var ekkert kalt nema bara á þeim hlutum andlitsins sem ég varð að hafa útúr til að komast leiðar minnar ... var einmitt að velta því fyrir mér þegar ég var úti við Gróttu og gekk eins og ég væri að ýta bíl til að komast áfram í rokinu hvort fólk myndi ekki skilja mig ef ég færi í göngutúra í +10 metrum á sekúndu með hjálm? Hjálmur myndi fullkomna kósí cocoon-fílinginn en það myndu kannski ekki allir skilja það? svo gæti líka verið að hjálmur taki á sig meiri vind en húfan þannig að hálsinn þarf að hafa meira fyrir að halda höfðinu uppi? kannski kaupi ég mér bara skíðagleraugu? :)

ég sló ekki vinnumet í síðustu viku, metið er 93 tímar minnir mig (þá mínus skólavinna), ég náði 84 tímum en afþakkaði eina aukanæturvakt og skellti mér í tvö partý í staðinn á laugardagskvöldinu, byrjaði hjá HAG félaginu og endaði í konudagspartý hjá fyrrum Júgóslövum - fékk að heyra það nokkrum sinnum um kvöldið að núna væri ég útlendingurinn ;) ég skemmti mér afskaplega vel, dansaði við lifandi ethnótónlist í nokkra klukkutíma, hlustaði á júgóslavnesku heilt kvöld og fékk pakka og rós því ég er kona ;) fyndið að fara til annars lands eina og eina kvöldstund án þess að fara til útlanda, mig langar aftur :)

Ég byrjaði á að segja hvað það er gott að eiga hund en það er líka afskaplega ljúft að eiga kött og þegar loðkúturinn fer að mala þá skiptir mig engu máli hvernig veðrið er, mig langar ekkert út ;)

Góðar stundir

fimmtudagur, mars 05, 2009

Ég slæ kannski vinnumet þessa vikuna, fimmtudagur og þegar ég fer heim í kvöld verð ég búin að vinna 64 klukkutíma í þessari viku ... og hún er ekki búin :)

En í morgun var ég að hlusta á FM 95.7 í bílnum ... fyrir einhvern misskilning en það reyndist hin besta skemmtun. Ég hló og hló og hló og hló :)

Það var einhver spurningarkeppni í gangi, með einföldum spurningum sem "geta þó snúist fyrir sumum" samkvæmt spyrlinum.

Spurning eitt:
Hvert er eftirnafn sænsku tennishetjunnar Björn sem vann Wimbeldon fimm sinnum?
Þetta gat þriðji keppandinn loksins en gisk hinna voru skemmtileg, Blomkvist og Larson og stelpan lýsti hetjunni sem manni "sem var alltaf með sídd í hárinu" :)

Næsta spurning:
Hvaða stóra eyja er útifyrir austurströnd Afríku og hefur meðal annars verið gerðar teiknimyndir um hana?
Gaurinn sem gat Björn Borg fékk að svara aftur og það varð að segja honum fyrsta stafinn í nafninu og að teiknimyndin hefði verið um dýralíf en þá gat hann auðvitað Madagaskar með þeim orðum að hann hefði verið rosalega tæpur þarna - ehhh, já, útvarpsstrákurinn var búinn að segja "mmmmaaaa" og "mmmmaaaaddddd" nokkrum sinnum ;)

Þriðja spurningin var langbest, útskýringin á henni alla vegana:°
Hvað var viðkvæmasti líkamshluti Akkilesar?
Innhringjandinn svaraði "táin á honum" en spyrillinn leiðrétti hann með því að segja hællinn og stákurinn breytti svarinu strax. Útvarpsmaðurinn sem var ekki að spyrja hló því sá sem spurði hafði sagt honum svarið og þá spyr stelpan í útvarpinu hvort þeir vissu söguna á bakvið hælinn? Jújú, þeir héldu það nú!

Það er sko alltaf talað um að ef þú ert veikur í einhverju þá er það þinn Akkilesarhæll. Spyrillinn mundi ekki hvaða skrímsli það var sem Akkiles var að berjast við en það brotnaði á honum ökklinn í átökunum og það varð hans bani ... jahá! Svo bætti þessi mannvitsbrekka því við að Herkúles hefði ekki haft neinn Akkilesarhæl og að hann hefði komið á eftir Akkiles :)

En þetta var ekki búið þó ég hafi verið fegin því að vera komin á áfangastað til að geta stoppað bílinn ég hló svo mikið. Það voru tvær spurningar í viðbót en ég held að þessi Akkilesarumræða hafi verið eitt það fyndnasta sem ég hef heyrt í útvarpi lengi :)

... kannski var þetta bara svefngalsi? en hrikalega fannst mér þetta fyndið og varð að deila því með ykkur :)

Lifið heil og hlæið á hverjum degi ;)

fimmtudagur, febrúar 26, 2009

Oh! þetta finnst mér fyndið! :)

An Aussie refuse collector is going along a street picking up the wheelie bins and emptying them into his dustcart.

He goes to one house where the bin hasn't been left out, so he has a quick look for it, goes round the back of the house, but still can't see it.

So, against the rules but in the spirit of kindness, he knocks on the door.

There's no answer.

Being a kindly and conscientious bloke, he knocks again - much harder.

Eventually a Japanese bloke comes to the door. 'Harro!' says the Japanese chappie.

'G'day, mate! Where's ya bin?' asks the collector

'I bin on toiret' explains the Japanese bloke, a bit perplexed.

Realizing the little foreign fellow had misunderstood him, the bin man smiles and tries again. 'No mate, where's your dust bin?'.

'I dust been to toiret, I toll you!'' says the Japanese man - still perplexed.

'Listen,' says the collector. 'You're misunderstanding me. Where's your wheelie bin?'

'Ok. Ok ' replies the Japanese man with a sheepish grin. ' I wheelie bin havin sex wirra wife's sister'


Stundum held ég að ég verði að fara að skipta um húmor, punchlinein eru löngu hætt að vera PC og trúið mér að flestir brandarar sem ég hlæ að þessa dagana eru þannig að þeir eru óbirtingahæfir eða of mikilir nördabrandarar til að fólk fatti þá, svona almennt - kannski vegna þess að það er febrúar? kannski verð ég bara að umgangast fólk meira? :)

Til að vega upp á móti síðasta myndbandi kemur hérna eitt mun snyrtilegra :)




Lifið heil

sunnudagur, febrúar 22, 2009

Gleðilegan konudag :)



Hérna er dulítið myndband í tilefni dagsins og eins og í öllum góðum kántrýlögum þá er það textinn sem skiptir máli ... ef þið heyrið ekki textann getið þið lesið hann hérna :)

Þið hafið ef til vill engan húmor fyrir þessu en ég hló - hefði kannski ekki átt að gera það því heimsfriður er ekkert aðhlátursefni auðvitað ... en kannski er þetta heldur ekkert fyndið nema að verða sex á sunnudagsmorgni í Borg óttans?

Lifið heil og ég óska ykkur öllum friðar og hamingju :)

laugardagur, febrúar 21, 2009

Stundum til að fá vinnu er best fyrir einstaklinga að mæta á staðinn til að sýna sig og sanna að það sé eitthvað í sig spunnið, frambærilegt fólk og þannig.

Það á ekki við í minni vinnu. Ef þú kemur í vinnuna til mín undir morgun eftir einum of marga verður atvinnuumsókn þín ekki tekin sérstaklega alvarlega ... og nei, þú mátt ekki fá blað og penna til að skrifa ferilskrá.

Fólk kemur mér sem betur fer ennþá á óvart :)

Annars er það að frétta að ég er laus við kvefið! Ég rétt náði að klára vaktina síðasta föstudag, kom mér heim og í sturtu og lá svo uppí rúmi þangað til um miðja vikuna með hita, kvef, háls- og eyrnabólgu, beinverki og almenna vanlíðan :/ en eins og ég segi þá er ég miklu skárri núna og hlakka til að hafa það gott á konudaginn fyrst ég missti af Valentínusardeginum - hint, hint, nudge, nugde ;)

... og þið sem hneykslist á Valentínusardeginum og segið hann bandarískt skrípi, ykkur spyr ég: hvernig dettur ykkur í hug að hafna hátíðsdegi í febrúar sem snýst um að vera elskulegur, góður við sína og borða súkkulaði? er það ekki einmitt það sem læknar mæla með í dimmasta skammdeginu? :)

Ég mæli með því :) ég mæli líka með nægum svefni þannig að ég ætla heim um leið og vaktinni lýkur og sofa langt, langt frameftir degi ;)

Góðar stundir

föstudagur, febrúar 13, 2009

Góður boðskapur :)



Vonandi hafið þið það öll sem allra best?

Búin að fá hellings hugmyndir um blogg en hef gleymt þeim jafnharðan, höfuðið er búið að vera fullt af kvefi undanfarið og ég get ekki beðið eftir vaktafríinu mínu til að sofa bara og sofa á milli þess sem ég knúsa köttinn og fer í göngutúra með hundinn ;)

Lifið heil

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Rosalega er ég fegin að það eru allir búnir að gleyma þessu aldamótarugli – ekki bara hræðslan við Y2K (kom það einhvern tímann fram?) heldur líka allt talið um hvenær aldamótin væru nákvæmlega, áramótin 1999/2000 eða 2000/2001 ... aldamótin mín voru 1999/2000 af þeirri einföldu ástæðu að fólk fæðist ekki eins árs, nuff said ...


voruð þið búin að sjá þetta?




annars gengur lífið sinn vanagang mín megin þrátt fyrir umbyltingar í samfélaginu, þarf að mæta í vinnuna (og líka smá í aukavinnu líka), fara út með hundinn, knúsa köttinn, sofa nóg svo ég verði ekki lasin og þannig ... svo var ég að heyra í hljómsveit sem heitir Disturbed, mér finnst hún góð :)

Góðar stundir

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Þá er komin ný ríkisstjórn - ekki komin nein reynsla á hana og ég þekki fólkið ekkert sérlega vel en ég er viss um að Jóhanna eigi eftir að halda þeim á tánum. Miðað við sögur af henni er ég sannfærð um að þessi ríkisstjórn verði ekki verklaus og það eru þau sem tala, verkin sumsé og blómin líka en það er annað mál :)

Ég hef komist að því að frostmyndir eru ofmetnar. Ég er búin að taka ansi margar myndir af veðrinu og því sem fylgir undanfarna daga. Mér finnst fallegt að sjá bleikan og hvítan og bláan Reykjanesskagan og fjólubláa Esjuna og hvíta Skarðsheiðina og spegilsléttan Faxaflóann, trjágreinar þykkar af snjó og trjáboli snjóhvíta ámegin og nokkrum sentimetrum breiðari útaf snjónum sem hefur fokið á þá og frosið. Himinninn er líka alltaf svo fallegur í frosti og sólsetrin sömuleiðis en ekkert af þessu næst almennilega á mynd ... ekki á þær myndir sem myndavélin mín getur tekið að minnsta kosti ;)

Þær eru samt margar fínar þó þær séu ekki eins og það sem ég var að taka mynd af en kannski er það sem vantar er "loftið"? ef ég skoða þær úti í kuldanum verða þær kannski fallegri? fegin samt að það er digitalöld, veit ekki hvort ég hefði tímt að taka þessar myndir á filmur - ég hefði að minnsta kosti ekki gert tilraunir held ég ;) ef þið eruð heppin set ég kannski einhvern daginn einhverjar myndir inn ... það gæti alveg gerst ;)

Góðar stundir

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Dóni ég - gleðilegt ár öllsömul :)

ég vildi bæta einu við, ég hef sagt ykkur frá litlu frænkum mínum sem eru fimleikasnillingar? sú eldri var einmitt að rúlla upp móti síðustu helgi, vann á einu áhaldi og varð í öðru á ÖLLUM hinum og!! það kom viðtal við hana í fréttunum á sunnudagskvöldið ;)

Hérna er það, aftarlega í fréttinni - hún er rangfeðruð að vísu en hún heitir afskaplega fallegu skírnarnafni og er hrikalega sæt þannig að þið þekkið hana alveg ;)

Sko, Ásdís bara tvö á einu kvöldi!! Takk fyrir kommentið ;)

Góðar stundir
Ég var rétt í þessu að leiðrétta rosalegan misskilning.

Heimasíminn hringir örsjaldan, bara nokkrum sinnum í viku. Gallup og mamma hringja en mamma hringir yfirleitt í gemsann ;)

Stundum þegar ég athuga símann eru missed call á skjánum. Ég hef alltaf gert ráð fyrir að ókunnu númerin tilheyrðu Gallup - þá ályktun byggði ég á því að hafa hringt tilbaka og fengið símsvara, nokkrum sinnum því ég var forvitin, en ég man að sjálfsögðu ekki í hvaða númer ég hringdi né hvaða númer voru að hringja í mig ;)

Í kvöld hringdi síminn, ég tók hann upp og kannaðist eitthvað við númerið ... svaraði og það var spurt um Möggu.

Ok, ég þekkti númerið sem sagt ekki sem númer hjá einhverjum sem ég þekkti heldur númer sem er yfirleitt alltaf í missed call listanum ;)

Þegar ég sagði að ég væri ekki Magga spurði konan hvort hún væri kannski ekki heima? Ég sagðist ekki vita það því Magga byggi ekki hérna. Þetta kom viðmælanda mínum mikið á óvart því hún var viss um að hún hefði hringt í hana áður í þetta númer ... þegar við bárum númerin saman munaði bara einum staf, síminn hjá mér byrjar á 552 en síminn hjá Möggu á 553 þannig að Magga hefur verið að missa af símatali svona einu sinni, tvisvar í viku í laaaangan tíma!

Gott að þetta skuli vera komið á hreint, það þurfa allir að geta verið í sambandi við vini sína á þessum síðustu og verstu ;)

Lifið heil