miðvikudagur, ágúst 27, 2008



Ég á afmæli í dag:)
Mér finnst afskaplega gaman að eiga afmæli:)

Þakka þér kærlega fyrir afmæliskveðjuna -hvaff, þér er boðið í afmælið mitt þegar það verður þó að þú sért ósammála því að halda uppá annað en tugafmæli - þér er líka boðið Heimir Há:)

Ég var að frétta að þeir ætla að halda aðra sing-along-sýningu á Mamma Mia á fimmtudag/föstudag ... hver er maður? :)

Lifið heil

þriðjudagur, ágúst 19, 2008



Oh, ég sá Wall-E í gær .... awwwww :)

Mér fannst hún æðisleg og henni verður bætt við safnið um leið og hún kemur á DVD, ég er ennþá brosandi;)

Ég fór líka og sótti litla bróður minn á flugvöllinn seint, seint í gærkvöldi. Hann var að koma frá Króatíu þar sem hann var búinn að vera í um viku með kærustunni sinni og dóttur. Hann fór til Afganistan í júní en var kallaður fyrr heim en stóð til því núna vilja þeir senda hann til Líberíu. Líbería er í Afríku, vestan við Fílabeinsströndina ef þið eruð ekki viss á því hvar þetta land er ... ég varð að fletta því upp:) sumsé, hann er kominn heim en stoppar stutt því hann fer líklega út aftur á fimmtudagsmorguninn, geðveikt spennandi allt saman:)

Í kvöld er ég að fara í félagi við fullt af skemmtilegum stelpum í innflutningspizzupartý og ég hlakka barasta hellings til! :)

Góðar stundir

mánudagur, ágúst 18, 2008

Ég var að lesa síðustu færslu og gat rétt stautaði mig frammúr henni ... ég er ekki að segja að ég geti unnið verðlaun fyrir samfelldan texta ef ég einbeiti mér, ég geri mér grein fyrir að ég tala og skrifa frekar lélega íslensku en maður lifandi, ég verð að hætta að blogga í vinnunni!!

Þegar ég er að vinna skrifa ég eina og eina setningu á milli þess sem ég athuga hvort menn andi, á afskaplega misgáfulegar samræður við fólk í alls konar ástandi, annarlegu og öðruvísi, og fylgist með því sem er að gerast allt í kringum mig - það er greinilega of mikið að gerast í hérna á sunnudagsmorgunum til að ég geti komið frá mér vitrænum texta.

Ég þekkti sumsé strákana vel í sundur, það var miklu meiri stærðarmunur á þeim en á hestunum, Grímur er að verða níu ára og Elvar Örn að verða sjö og bræðurnir eru með mismunandi háralit, ekki hestarnir. Svo gleymdi ég að minnast á smurða nestið í ferðinni sem Hrafnhildur kona Einars kom með fyrir okkur og vöfflurnar sem hún var að baka þegar við komum heim:)

Annað hvort verð ég að hætta að skrifa í vinnunni eða skrifa í stuttum setningum. Sem segja frá öllu sem er sagnavert. Njálustíll. Eða bara listar, upptalningar og staðreyndir eins og tímasetningar, dagar, félagar, fjarlægðir eknar og gengnar? En eru þannig blogg ekki skelfilega leiðinleg aflestrar?

Blitzblogg er eflaust málið. Engar málalengingar eða smáatriði, nema auðvitað að blitzbloggið sé um eitthvert smáatriðið, en þau eru yfirleitt svo smávægileg að þau eiga sér engin smáatriði sjálf, nema hjá sumu fólki. Við sjáum lífið ekki öll eins, sem betur fer kannski?

Lifið heil

laugardagur, ágúst 16, 2008

Vika í Menningarnótt og svo á ég afmæli :) Síðasti frídagur mánaðarins var síðasta þriðjudag (næsti frídagur er líklega ekki fyrr en 8. september) en ég notaði hann ofsalega vel:) ég sló grasið (ég er hætt að tala um gras"flötina" og tala héðan í frá bara um grasið, það er ekki mikið flatt nefnilega, aðallega upp og niður) og svo fór ég á hestbak með Maju uppí Borgarfirði:) við vorum tvo, þrjá tíma á leið úr Norðurárdalnum yfir í Þverársíðuna og við skemmtum okkur konunglega - ferðalagið endaði að vísu ekki sérstaklega vel hjá Maju en við vissum það ekki þarna um kvöldið þannig að þá var þetta alveg afskaplega gaman:)

Ég fékk hest sem heitir Mósi (því hann er mósóttur eða móálóttur) og við vorum mjög ólíkir persónuleikar. Hann vildi alltaf vera fremstur en ekki ég (aðallega því ég vissi ekki hvert ég var að fara) og svo var hann alltaf að prumpa, nema einu sinni þegar það kom með'í beint fyrir framan Maju og Yl ... jamms, við vorum mjög ólík við Mósi en þetta gekk alveg bærilega hjá okkur :) Það voru fimm hestar ferðinni, Mósi, Þytur, Helmingur (heitir Darri en er svo lítill að hann er kallaður Helmingur, ekki sérlega fallegt en fyndið, soldið eins og að hlæja að öryrkjabrandara), Ylur og Flicka og við vorum þrjú fullorðin (Einar bóndinn sem á hestana, Maja og ég sjálf) og tveir litlir strákar (synir Einars) sem skiptust á að vera á Þyt/Helming - þekkti þá tvo ekki í sundur því þeir eru alveg eins á litinn en ég hef ekki hugmynd hvað sá litur heitir því ekki getur verið að þeir séu bara dökkbrúnir?:)

Þegar við vorum hálfnuð tilbaka fékk ég hest til að teyma líka, hún hét Flicka og er rauðblesótt, sokkótt og glófext - minnir mig, dýralitir hafa aldrei verið mín sterkasta hlið ;) ég teymdi hana alveg upp fjall og hálfa leið niður gil hinum megin, alveg þangað til við komum að á, pínkulítil spræna, við vorum margbúin að fara yfir Norðuránna - eða svona "afleggjara" af henni - og þá var ekkert vesen, sýndist mér á Maju sem hélt í hana þá, þannig að ég bjóst ekki við neinu ... Við Mósi fórum yfir ánna en Flicka snarstoppaði á árbakkanum þannig að ég kipptist næstum afturábak af hnakknum og ég missti takið á taumnum. Einar reddaði þessu, hann var á Þyt með Helming í taumi, hann rétti mér tauminn og fór yfir ánna til að ná í Flicku og saman komust þau yfir í svona annarri, þriðju tilraun:)

Eftir ánna fórum við meira niður gilið og á einum stað var svo bratt að ég varð að halla mér aftur, niður brattann, stóð í ístöðunum, með hest í taumi og allt í einu kom svona "vúhúúúú" útum munninn á mér (já, lúði af guðs náð elskurnar mínar) þegar Maja og Einar litu við til að sjá hvort það væri ekki í lagi með mig fann ég mig knúna til að útskýra kallið með því að hrópa, alltof hátt:

Mér líður alveg eins og kúreka!!

Ójá. Sem betur fer var farið að skyggja og það sá mig enginn roðna:)

Og ef einhver er að spá í hvernig minn húmor er þá fór ég að flissa eins og fáviti (og ætlaði ekki að geta hætt, það komu tár) þegar við vorum komin tilbaka því ég fattaði að ég hefði verið með hest, misst hann og fengið Helming tilbaka;)

Góðar stundir

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Gjörgæslan drap blómið mitt endanlega ... ég setti það inní eldhús eftir vinnu á mánudagskvöldið en þegar ég kom heim úr vinnunni á þriðjudagskvöldið leit það út eins og blár aukaleikari í The Mummy:/ greinilega of heitt inni fyrir blómið sem gefur til kynna að það sé í raun útiblóm en hafi bara drepist því það var svo heitt úti á svölunum mínum, ótrúlegt en satt:)

ég er samt ekki búin að henda því, ég setti það aftur útá svalir í kuldan og rigninguna og svo kemur í ljós hvort það lifni nú kannski barasta við þar sem veðrið er ekki alveg eins gott og undanfarið;)

Og -hvaff, það kemur ekki til greina að ég hætti að halda uppá afmælið mitt! Ekki séns:) ef fólk vill ekki koma því ég á ekki tugafmæli þá þarf það ekkert að koma, ég mun halda uppá það samt og ég er klár á því að fullt af fólki mætir því ég er svo hrikalega skemmtileg og baka svo fína súkkulaðiköku að um hana ganga sögur til næsta bæjar;) ... svo er ég svo léleg í að gera eitthvað skipulagt og skemmtilegt þannig að afmælið er kjörin afsökun fyrir veislu/partý/skemmtiferð;)

Vantar einhverjum svefnsófa? Hann er soldið kominn til ára sinna en er víst í alveg þolanlegu ásigkomulagi, fæst gefins á gott heimili:)

Góðar stundir

mánudagur, ágúst 04, 2008

Kom heim frá Húsafelli í gær:) fór þangað á fimmtudaginn síðasta í góðum hóp og hafði það sérlega gott í mikilli sól og blíðu, kannski aðeins of mikilli sól á köflum því á laugardaginn vorum við farin að leita uppi skugga til að kæla okkur í;)

Alltaf gaman að fara í útilegur og ég er ákveðin í að þessi verði ekki sú síðasta þetta sumarið - ef veður leyfir:) annars var ég að spá í það að halda uppá afmælið mitt með því að afþakka alla pakka og safna liði með mér í Adrenalíngarðinn - hvernig líst fólki á það? endilega bjallið ef þið viljið koma með eða kommentið eða sendið póst ... verið í bandi ef ykkur langar með:)

Annars held ég að ég hafi verið plötuð, aftur.

Ég held að útiblómið mitt sé ekkert útiblóm. Ég held að sölukonan hafi verið að ruglast á blómum, ekki séð blómið sem ég var að kaupa og verið að meina blómið við hliðina. Það var líka blátt, held ég.
Ég held að útiblóm geti ekki óskað sér betra útiveðurs en hefur verið undanfarna viku. Sól og hlýtt á daginn og svo rigning líka í hæfilegum skömmtum - blautum já, en hæfilegum held ég, ef þú ert blóm? Inniblóm hefðu meira að segja verið nokkuð sátt og eflaust lifað af að vera úti yfir nótt og vera úti í rigningunni. Veðrið hefur verið milt og blómvænt í Reykjavíkinni. Fídel hefur meira að segja látið það í friði. Kannski hefði ég átt að taka eftir því betur, Fídel hefur kannski verið að forðast nályktina?

Blómið er sumsé ekki neitt að dafna, það er að blómstra en laufblöðin eru öll að krymplast og deyja:( það á ekki að vera svoleiðis þannig að það er komið inn í gjörgæslu - sjáum hvort blessað blómið hafi það ekki af þegar það fær að standa inni í sólinni, læt ykkur vita:)

Lifið heil