laugardagur, ágúst 16, 2008

Vika í Menningarnótt og svo á ég afmæli :) Síðasti frídagur mánaðarins var síðasta þriðjudag (næsti frídagur er líklega ekki fyrr en 8. september) en ég notaði hann ofsalega vel:) ég sló grasið (ég er hætt að tala um gras"flötina" og tala héðan í frá bara um grasið, það er ekki mikið flatt nefnilega, aðallega upp og niður) og svo fór ég á hestbak með Maju uppí Borgarfirði:) við vorum tvo, þrjá tíma á leið úr Norðurárdalnum yfir í Þverársíðuna og við skemmtum okkur konunglega - ferðalagið endaði að vísu ekki sérstaklega vel hjá Maju en við vissum það ekki þarna um kvöldið þannig að þá var þetta alveg afskaplega gaman:)

Ég fékk hest sem heitir Mósi (því hann er mósóttur eða móálóttur) og við vorum mjög ólíkir persónuleikar. Hann vildi alltaf vera fremstur en ekki ég (aðallega því ég vissi ekki hvert ég var að fara) og svo var hann alltaf að prumpa, nema einu sinni þegar það kom með'í beint fyrir framan Maju og Yl ... jamms, við vorum mjög ólík við Mósi en þetta gekk alveg bærilega hjá okkur :) Það voru fimm hestar ferðinni, Mósi, Þytur, Helmingur (heitir Darri en er svo lítill að hann er kallaður Helmingur, ekki sérlega fallegt en fyndið, soldið eins og að hlæja að öryrkjabrandara), Ylur og Flicka og við vorum þrjú fullorðin (Einar bóndinn sem á hestana, Maja og ég sjálf) og tveir litlir strákar (synir Einars) sem skiptust á að vera á Þyt/Helming - þekkti þá tvo ekki í sundur því þeir eru alveg eins á litinn en ég hef ekki hugmynd hvað sá litur heitir því ekki getur verið að þeir séu bara dökkbrúnir?:)

Þegar við vorum hálfnuð tilbaka fékk ég hest til að teyma líka, hún hét Flicka og er rauðblesótt, sokkótt og glófext - minnir mig, dýralitir hafa aldrei verið mín sterkasta hlið ;) ég teymdi hana alveg upp fjall og hálfa leið niður gil hinum megin, alveg þangað til við komum að á, pínkulítil spræna, við vorum margbúin að fara yfir Norðuránna - eða svona "afleggjara" af henni - og þá var ekkert vesen, sýndist mér á Maju sem hélt í hana þá, þannig að ég bjóst ekki við neinu ... Við Mósi fórum yfir ánna en Flicka snarstoppaði á árbakkanum þannig að ég kipptist næstum afturábak af hnakknum og ég missti takið á taumnum. Einar reddaði þessu, hann var á Þyt með Helming í taumi, hann rétti mér tauminn og fór yfir ánna til að ná í Flicku og saman komust þau yfir í svona annarri, þriðju tilraun:)

Eftir ánna fórum við meira niður gilið og á einum stað var svo bratt að ég varð að halla mér aftur, niður brattann, stóð í ístöðunum, með hest í taumi og allt í einu kom svona "vúhúúúú" útum munninn á mér (já, lúði af guðs náð elskurnar mínar) þegar Maja og Einar litu við til að sjá hvort það væri ekki í lagi með mig fann ég mig knúna til að útskýra kallið með því að hrópa, alltof hátt:

Mér líður alveg eins og kúreka!!

Ójá. Sem betur fer var farið að skyggja og það sá mig enginn roðna:)

Og ef einhver er að spá í hvernig minn húmor er þá fór ég að flissa eins og fáviti (og ætlaði ekki að geta hætt, það komu tár) þegar við vorum komin tilbaka því ég fattaði að ég hefði verið með hest, misst hann og fengið Helming tilbaka;)

Góðar stundir

3 ummæli:

theddag sagði...

Líst ljómandi vel á nýja kúrekann :)

Deeza sagði...

Vá, ég hélt fyrst að þú hefðir ekki þekkt litlu strákana í sundur af því að þeir voru alveg eins á litinn! :-D

Nafnlaus sagði...

Ein voða sein að lesa bloggið en
Garún, Þverárhlíð ... ÞverárHLÍÐ - nú ertu sko að slá saman Þverárhlíð og Hvítársíðu hahahah snilld. En takk fyrir útreiðartúrinn, hann var æði (auðvitað fyrir utan óhappið mitt sem er alveg að gróa).