þriðjudagur, október 30, 2007

Auðvitað átti ég við viðtengingarháttARsýki og að sjálfsögðu ætla ég ekki að vera lögfræðingur:) ég var að meina þegar fólk talar skringilega og notar "sé" í sífellu í staðinn fyrir "er" - "ef það laust" og "ef það frí" ... ég hef aldrei heyrt þetta en mér var sagt um daginn að þetta væri málýska að vestan, hafið þið heyrt það?

Núna er tími vetrardekkjanna, ekki endilega negldra dekkja bara ekki sumardekkja - persónulega myndi mig langa í hnetuskeljadekk ef ég væri ekki á fínum heilsársdekkjum, hentuskeljar ríma einhvern vegin við Ara litla finnst þér ekki?

Ég varð hins vegar að setja vinnubílinn á nagladekk í síðustu viku, negld Michellindekk eins og allir hinir vinnubílarnir. Ég fer á dekkjaverkstæðið sem fyrirtækið notar og tilkynni manninum á skrifstofunni að ég sé "komin til að kaupa negld Michellindekk á Þykkvabæjarbílinn þarna í hlaðinu" - tegund dekkjanna er ákveðin af forstjóranum eftir álit og umræður allra starfsmannanna og að fenginni reynslu nokkurra áratuga, samanlagt:)

Dekkjamaðurinn skoðar bílinn, flettir upp í tölvunni og kveður svo upp dóminn, hann "á ekki til dekkin í þessari stærð" en hann "á hins vegar til ..." svo hefst söluræðan. Ég ítreka nokkrum sinnum að ég hafi ekki nokkurt umboð til að kaupa öðruvísi dekk en þau sem ég var send til að kaupa en gaurinn heldur áfram og fer meira að segja að telja upp þá möguleika sem leynast í loftbóludekkjum og grófum heilsársdekkjum. Ég spyr hvort að "von sé á dekkjunum sem ég á að kaupa, ég get alveg komið aftur í næstu viku ef þau verða komin þá?" Honum er alveg sama, hann ætlar að selja mér eitthvað sem ég má ekki kaupa, ég geri því það eina rétta í stöðunni, ég hringi í forstjórann:)

"blessaður, er ég að trufla? geturðu rætt dekk?" jú, hann gat það þannig að ég rétti sölumanninum mikla símann og hann segir "sæll, ég var að segja stelpunni að við eigum ekki til negld Michellindekk í réttri stærð en við eigum negld BFGoodrich?" hann þegir í nokkrar sekúndur og ég heyri að forstjórinn svarar einhverju. Hvað haldiði að dekkjasölumaðurinn hafi sagt þá?

"Má ég þá ekki bara athuga lagerinn og biðja hana um að koma aftur þegar dekkin eru komin inná gólf til mín?"!!!!!!!!

... ég varð að hringja í forstjórann til að fá hann til að svara þessu???!! Skammaðist mín nett auðvitað því þetta virkaði eins og ég væri algerlega ófær um að taka sjálfstæða ákvörðun!! Þegar ég hitti forstjórann í morgunkaffinu daginn eftir bað ég hann afsökunar á símtalinu, "ef ég hefði fengið tækifæri til að svara þessari spurningu hafði ég aldrei þurft að hringja, ég fékk bara söluræðuna"

"Ég velti því einmitt fyrir mér afhverju þú gast ekki svarað þessu sjálf en áttaði mig svo á því að hann var auðvitað að reyna að selja þér eitthvað annað, ef þú værir með typpi elskan mín myndirðu aldrei lenda í þessu, þetta er allt í lagi."

Mér finnst forstjórinn mjög fínn gaur - þeir eru það allir, skrifstofustelpurnar líka, ég mun sakna þeirra:)

Lifið heil

miðvikudagur, október 24, 2007

Hversu mörg egg sjóðið þið í einu? Ég hélt það væri ekki hollt að borða meira en eitt í einu? ... og ég var svona lengi með bakkann því mér fannst svo sorglegt hvað ég var lélegur kokkur að ég borðaði yfirleitt túnfiskinn egglausan og uppúr dósinni;)

og takk öll fyrir kommentin!! ég er ekki nægilega góð í þakka fyrir mig en mér finnst frábært, æðislegt að fá komment:)

Ég tók popp heim úr vinnunni áðan og hugsaði að við Fídel myndum kúra í kvöld, borða popp undir teppi og hafa það kósí inni í hlýjunni og hlusta á rigninguna ... svo var ég stopp á ljósum og opnaði blessaðan pokann til að fá mér tvö, bara tvö ... en það sem var eftir í pokanum þegar ég kom heim var ekki uppí nös á ketti;)

"gerir ekkert til," hugsaði ég, ef ég er ekki að borða popp get ég einbeitt mér að því að knúsa og klappa Fídeli, hann er búinn að vera svo mikið einn undanfarið að hann á skilið að fá óskipta athygli mína eitt kvöld, bara vera góð við hann eitt kvöld og hræða hann ekki með skrjáfi í popppoka:)

jújú, kem heim, opna inn, fer inn í eldhús með kisumat, legg frá mér poka í stofunni, loka útidyrahurðinni, fer aftur inn í eldhús og set vatn í potta og byrja að undirbúa kvöldmatinn - á meðan ég er að bardúsa í eldhúsinu er Fídel að mjálma frammi og ég tala við hann á fullu eins og klikkaðri kattarkonu sæmir, "já, loðkúturinn minn, ég er loksins komin heim" og "eigum við ekki bara að hafa það kósí í kvöld, litli kall?" og alltaf svarar hann mér með háværu mjái svo hætti ég að tala því ég var búin að segja allt sem mér datt í hug og var farin að endurtaka mig. En þó ég hætti að tala heldur hann áfram að mjálma og mjálmar sífellt "vælulegra" ... hann mjálmar yfirleitt ekki vælulega þannig að ég fer að tékka á honum en finn hann hvergi!!!

hvað haldiði að ég hafi gert? mér er ekki viðbjargandi - ég át nammið á leiðinni heim og læsti svo litlu kisuna mína, sem ég ætlaði að sinna svo óskaplega vel, frammá gangi!!

ég kem betur fram við óvini mína! :)

en að öðru, ég er ekki sérlega klár í íslensku en ég þekki algera snillinga sem margir hverjir lesa bloggið mitt og mig langar til að spyrja að einu:
er viðtengingarháttssýki til?

ef svo sé, endilega látið mig vita, þetta hljómar svo asnalega;)

lifið heil

mánudagur, október 22, 2007

Það besta við svona daga er að vera loksins komin heim til mín:) fara í sturtu og elda kvöldmat sem er svo góður að Fídel vælir um að smakka áður en hann er tilbúinn - litli loðkúturinn er frábær gagnrýnandi því honum finnst maturinn minn svo góður:) ég var á tímabili með smá komplexa yfir því að geta ekki eldað en undanfarið eru þeir alveg horfnir því ég hef ekki klúðrað neinu, það hefur allt verið ætt fyrir utan það að eggjafíaskóið hefur verið útskýrt og hafði ekkert með mína eldunarhæfileika að gera:)

það var alltaf brandari að ég hafi verið nokkra mánuði að læra að sjóða egg því sama hvað ég gerði þá gat ég ekki soðið egg skammlaust - þegar ég tók skurnina af kom alltaf öll hvítan með í flygsum, í föstu formi eða fljótandi eftir eldunartíma og stundum flaut gulan með líka ... afskaplega neyðarlegt og ég tók sökina alfarið á mig og mína hæfileika, þar til um daginn:) það er prótínskortur eða efnasambandsrugl sem orsakar það að eggið sýðst ekki almennilega ekki potturinn minn, vatn, edik, salt, gat oná, gat undir etc. etc. sem ég prófaði:) og allan þennan tíma notaði ég sama 12 eggja eggjabakkann þannig að öll eggin í honum voru væntanlega gölluð - eggin sjáiði, ekki ég:)

hrísgrjónin eru hins vegar annað mál ... þau klúður á ég skuldlaust en núna kann ég að elda þau fullkomlega - geta grjón verið a la dent eins og pasta?;)

góðar stundir
Í dag vinn ég þriðja vinnudaginn í október og auðvitað vaknaði ég í nótt með bullandi kvef - morgunmaturinn verður Panodil Hot og aukaskammtur af bjartsýni ... er nokkuð kalt í dag? :)

góðar stundir

sunnudagur, október 21, 2007

Jæja:) vona að það séu ekki allir hættir að kíkja hingað?

það er kominn rétt rúmur mánuður síðan ég bloggaði síðast en það er að sjálfsögðu ekki vegna þess að ég hef verið löt þennan mánuð, alls ekki:)

ég kom heim frá Ungverjalandi í gærmorgun eftir tæpar tvær vikur í Búdapest en ég byrjaði mánuðinn í New York - ég var bara heima í rétt tæpa tvo sólarhringa á milli ferðanna og vann tvo heila vinnudaga þannig að ég náði hvorki að hitta né kveðja nokkurn mann nema vinnufélagana, Fídel og fjölskylduna:)

október hefur því verið mánuður ferðalagana en líka merkilegt nokk, söngleikjanna - í New York sá ég Avenue Q, Hairspray og The Color Purple með Fantasiu - held að þessi síðastnefnda hafi verið sú besta, ekki oft sem ég fer að gráta á almannafæri;)
en í Búdapest fór ég að sjá Chicago, á ungversku og það var mjög áhugavert:) leigði mér myndina í gærkvöldi því ég hafði aldrei séð hana og ungverska konan í myndinni sem dó var kínversk í ungversku uppsetningunni:)

ég fyllti minniskortið í myndavélinni í báðum ferðunum þannig að ég fyllist kvíða þegar ég hugsa um að fara í gegnum þær allar en ég mun láta verða af því fyrr en síðar - þær eru allar rosalega flottar sko, þær eru bara svo margar;)

þar til næst, lifið heil:)