mánudagur, september 18, 2006

Jæja smjattpattar,

kominn tími á blogg því það er komið haust og löglegu bloggsumarfríi hlýtur að vera lokið ... ég segi að það sé komið haust vegna þess að það rignir á gluggana hjá mér og ég var að útskýra fyrir kettinum að hann megi ekki hafa svalahurðina opna því það kemur svo kalt inn. Við ræðum þetta reglulega allan veturinn (og stundum á sumrin þegar vindáttin er óhagstæð) en hann gleymir því alltaf á milli skipta, hann hlustar heldur aldrei á mig. Ég veit ekki hversu oft ég hef beðið hann um að vaska upp á meðan ég er í vinnunni, ryksuga, búa um, taka til, etc. en það eina sem honum tekst alltaf og óumflýjanlega að gera er að strauja lítið hringlaga svæði með eigin líkamshita og skreyta það með hárum, ach, hann er svo duglegur:)

Nick Cave síðasta laugardag ... ég ætlaði að skrifa um það í gær en mig skorti orð og í dag er ég engu skárri, ég er ennþá brosandi:) Mér finnst maðurinn hreinn og klár snillingur:) að hlusta á lögin hans er eins og að lesa góða bók, þau "dýpka" við hverja hlustun:) ekki alveg öll að vísu, Rock of Gibraltar er frekar bókstaflegt til dæmis, en langflest :) svo er líka svo gaman að hlusta á tónleikaútgáfurnar því þær eru allt, allt aðrar en þær sem koma á diskum:) og tónleikarnir á laugardaginn voru engin undantekning, þvílíkt flottir!!

Mér finnst frekar merkilegt að ég skuli vera svona hrifin af tónlistarmanni þar sem ég þarf ekki alltaf að hafa tónlist í gangi. Ég er búin að skrifa þetta nokkrum sinnum og þetta kemur aldrei rétt út þannig að nánari útskýringar er þörf: mér finnst einhver vegin að fólk sem á sér uppáhaldstónlistarmenn/hljómsveitir/etc. er alltaf að hlusta á tónlist, það á ipod og fer ekki út fyrir hússins dyr án þess að vera í sambandi við hann, það kemur inn í herbergi og kveikir á útvarpinu, það kemur heim til sín og kveikir á tónlistinni áður en það gerir nokkuð annað ... stundum kveiki ég ekki á tónlist dögum, jafnvel vikum saman, það hefur aldrei truflað mig að eiga útvarpslausa bíla eða að vera viðtækjalaus nokkurs staðar en þegar von er á Nick Cave eða hann er einhvers staðar þar sem ég get hugsanlega mögulega hlustað á hann þá er ég mætt fremst í röðina eldsnemma með take-away kaffi og bros á vör ... við Gréta vorum fremstar í röðinni fyrir tónleikana 2002 og við Valgerður stóðum fremstar þegar miðasalan opnaði í sumar:)

Kannski frekar hallærislegt? En mér til málsbóta þá langar mig ekki baun til að hitta manninn! Ég þekki sjálfa mig, ef ég fengi tækifæri til að hitta hann myndi ég bara standa og roðna og blána og gapa og gleyma hvað ég heiti og að lokum kæmi eitthvað einkennilegt hljóð innan úr vélindanu og örlítill sleftaumur myndi leita niður hökuna og falla á útrétta hönd meistara Nick Cave ... og ég þyrfti að lifa með því alla ævi að hafa fengið tækifæri til að hitta manninn og vita að ég hefði slefað á hann :)

Einkennilega hljóðið innan úr vélindanu er til og ég gef það reglulega frá mér, nú síðast í dag þegar ég komst að því að þjálfararnir mínir (sem þjálfa nokkur hundruð einstaklinga) vita hvað ég heiti ... er það gott eða er það vont? Ég var í 14 manna bekk síðustu tvö árin í menntaskóla og ég er nokkuð viss um að næstum helmingur kennaranna hafi ekki vitað hvað ég hét ... það vissi það enginn fyrstu tvö árin:)

Lifið heil

Engin ummæli: