sunnudagur, apríl 21, 2024

Sumarplanið

Það kom færsla inn á síðurnar sem ég fylgi á Facebook tengdar náminu mínu í ritlist fyrir nokkrum vikum. 

Og áður en ég held áfram. Já, ég er í námi. Aftur. Nei, ég er ekki búin að læra nóg. Já, þetta er mastersnám og já, ég er í fullri vinnu. Loks, annað nei, ég hef aldrei verið í námi án þess að vera í fullri vinnu en ég er hins vegar á fullu að endurforrita sjálfa mig. Ég er alveg búin að eyða nokkrum sjálfvirkum forritum en þetta með vinnuna er frekar neðarlega í kjarnanum og verður að bíða betri tíma.

Færslan var ein, síðurnar sem koma til greina nokkrar, en ég finn færsluna ekki núna. Mögulega var henni eytt því höfundurinn var óviss um skynsemi þess að blogga? Eða að blogga opinberlega? Færslan var krækja á nýja bloggsíðu og ég las fyrsta og eina póstinn. Mér fannst hann góður og umhugsunarverður. Ég byrjaði sjálf að blogga árið 2003 þegar ég var svo feimin að ég leit varla upp og var ekki viss um að ég hefði nokkuð uppá dekk að gera, hvað þá fram á ritvöllinn. Árið 2024 vinn ég við að tala við ókunnuga og halda fyrirlestra og er langt komin með mastersnám í ritlist.

Ég setti ekki slóð á bloggið mitt, þessa síðu, í athugasemdir við færsluna en hef verið að hugsa um blogg síðan og hef ákveðið að halda áfram. 

Það er svo oft sem ég upplifi eitthvað sem mér finnst skemmtilegt eða spennandi en hef ekki lyst á að setja það á samfélagsmiðla. Mig langar ekki til að orðin mín verði deyfðarskruni (e. doom scrolling) að bráð. 
Nei, það er miklu betra að setja færslu hingað þar sem enginn mun koma til með að lesa. Eins og að vera loksins orðin vitavörður og skrifa fyrir vindinn í staðinn fyrir að yfirgnæfa kliðinn á Lækjartorgi.

Lifið heil og góðar stundir.

Engin ummæli: