miðvikudagur, mars 03, 2010

Það þýðir ekkert fyrir ykkur að ætla að hringja í heimasímann minn, ég er búin að týna honum. Aftur.

Ég man ekki fyrir mitt litla hvenær ég notaði hann síðast en hef grun um að það hafi verið á síðustu dagvaktartörn sem bakup-vekjaraklukka en hvað hefur orðið af honum eftir það vita himnarnir einir. Þetta hefur komið fyrir áður. Oftar en ég kæri mig um að upplýsa því ég bý ekki í stórri íbúð. Af einhverjum ástæðum legg ég þennan blessaða síma alltaf frá mér nákvæmlega þar sem samtalinu lýkur en fer ekki með hann þangað sem "hann á heima". Núna er hann sumsé batteríslaus og svarar ekki innkalli.

Hann gæti verið hvar sem er. Ég hef fundið hann frammá palli, í vasanum á sloppnum mínum (sem ég nota tvisvar á ári), inní frysti (honum varð ekki meint af ótrúlegt en satt), í sokkaskúffunni, í bókaskápnum, fataskápnum, eldhússkápnum, bakvið rúmið (sem gæti að vísu verið eftir að hafa notað hann sem vekjaraklukku), ofaní föndurkassa og hingað og þangað sem hann á ekkert erindi.

Ef hann finnst (ef ég hef ekki óvart hent honum sumsé) þá verða settar reglur um frágang símans á þessu heimili. Þangað til verðið þið að hringja í gemmsann eða sleppa því auðvitað :)

Lifið heil

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahahahahahahaha - ég nota minn heimasíma á hverjum degi sem vekjaraklukku og var alltaf að týna honum þangað til það tókst hjá mér að venja mig á að setja hann alltaf á sama stað á morgnanna - gleymi stundum að setja hann í hleðslu en veit þó hvar hann er:o)
Valgerður

Hlúnkur Skúnkur sagði...

Og ef síminn finnst og settar verða á reglur varðandi frágang, hver á þá að sjá um að þeim reglum sé fylgt eftir? Sá sem sjálfur týnir símanum, eða verður þetta útseld vinna?